Heildarframlög til SOS Barnaþorpanna á Íslandi hafa aldrei verið hærri að því er fram kemur í ársskýrslu félagsins 2024. Þau nema 952 milljónum, þar af 884 milljónir frá styrktaraðilum.
Árið 2024 var metár í rekstri SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Heildarframlög styrktaraðila námu samtals 884 milljónum og voru tekjur samtakanna 19% hærri en árið á undan, sem var einnig metár samkvæmt því sem kemur fram á vef SOS Barnaþorpanna á Íslandi.
Heildartekjur samtakanna voru 952 milljónir í ár. Hafa samtökin þar með tekið fram úr heildartekjum Unicef sem námu 849 milljónum.
Samtökin státa af lágu hlutfalli rekstrarkostnaðar, um 14,5%, sem gerir þeim kleift að ráðstafa 85,5% framlaganna í sjálft starf samtakanna fyrir umkomulaus og bágstödd börn víða um heim.
Stóran hluta af tekjum samtakanna í ár má rekja til erfðagjafar eftir Baldvin Leifsson, vél-, renni- og bátasmið.
Erfðagjöfin er sú stærsta í sögu samtakanna á Íslandi og nemur 128 milljónum. 23 milljónum hennar hefur nú þegar verið ráðstafað til háskólamenntunar ungmenna í Rúanda.