„Við finnum að það er mikil óvissa og fólk áttar sig ekki alveg á því hvað tekur við,“ segir Sindri Freyr Ásgeirsson, varaforseti Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE), í samtali við mbl.is, inntur viðbragða við því að Bandaríkjaforseti hafi fellt niður heimild Harvard háskóla til að taka við erlendum nemendum.
Fregnir hafa borist af því að óvissa sé um námslok og útskrift erlendra nemenda frá skólanum vegna þessa.
Sindri segir SÍNE vera í samskiptum við nokkra nemendur við skólann en að þau hafi ekki heildaryfirsýn yfir hópinn. „Við erum að hvetja fleiri nemendur til þess að hafa samband við okkur,“ segir hann og bætir við að SÍNE vinni með háskólamálaráðuneytinu í því að veita stuðning í þeirri von að nemendur geti lokið námi sínu og útskrifast.
Aðspurður hvort SÍNE hafi upplýsingar um fjölda íslenskra námsmanna í Harvard segir Sindri að slík gögn liggi ekki fyrir.
„Okkur langar að hvetja nemendur sem eru í Harvard til að hafa samband við okkur. Það er hægt að senda póst á sine@sine.is eða í gegnum samfélagsmiðlana okkar. Við værum endilega til í að fá aðeins betri yfirsýn yfir það hversu margir nemendur eru úti og hvað fólk er að glíma við og annað slíkt,“ segir Sindri og bætir við að kennslu sé að mestu lokið, því sé mikilvægt að skoða hvaða úrræði eru í boði fyrir þá sem ekki eru búnir með námið.
„Ég hvet fólk til þess að hafa samband við okkur og við reynum að leysa úr því sem hægt er að leysa úr í samstarfi við bæði utanríkisráðuneytið og háskólamálaráðuneytið,“ segir hann að lokum.
Ríkisstjórn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, tilkynnti í gær forsvarsmönnum Harvard að heimild skólans til að taka á móti erlendum nemendum hefði verið felld niður. Samkvæmt tilkynningu frá bandaríska heimavarnaráðuneytinu þýðir það að erlendir nemendur við Harvard þurfi annaðhvort að finna sér nýjan skóla eða eigi á hættu að missa dvalarleyfi sitt í Bandaríkjunum.