Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri, segir að Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri eigi að víkja úr embætti. Hann hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart öryggi þjóðarinnar. Það hafi hann bæði gert sem æðsti embættismaður í ráðuneyti sem fer með vörslu landamæra Íslands en einnig sem fulltrúi sem sæti á í þjóðaröryggisráði.
Úlfar var gestur Spursmála í dag og hefur viðtalið vakið mikla athygli. Afar óvenjulegt er að fyrrum embættismenn tjái sig með jafn opinskáum hætti og hann gerir.
Segir Úlfar að almenningur á Íslandi eigi einfaldlega heimtingu á að vita hver raunveruleg staða á landamærum Íslands sé. Æðstu stjórnendur ríkisins hafi látið undir höfuð leggjast að taka á bráðavanda sem felist í því að innri landamæri Schengen-svæðisins séu galopin.
Kallar Úlfar raunar eftir því að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, taki einnig pokann sinn. Hún var um nokkurra ára skeið lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli og segir Úlfar að hún hafi ekki sinnt skyldum sem á henni hvíldu í því skyni að koma skikki á landamærin. Þá séu lögreglumál í landinu ekki á góðum stað.
Viðtalið við Úlfar má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: