„Stjórnvöld geta gert miklu meira“

Stór helgi fram undan hjá Krabbameinsfélaginu en 93 milljónum króna …
Stór helgi fram undan hjá Krabbameinsfélaginu en 93 milljónum króna verður úthlutað úr Vísindasjóði félagsins í dag Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Mikið verður um að vera hjá Krabbameinsfélaginu um helgina. Í dag voru tæplega 100 milljónum króna úthlutað úr Vísindasjóði félagsins til áframhaldandi krabbameinsrannsókna hérlendis. Á morgun verður einnig aðalfundur félagsins. 

„Þetta er rosalega stór helgi,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands, í samtali við mbl.is.

„Núna í hádeginu var verið að úthluta 93 milljónum úr vísindasjóði Krabbameinsfélagsins til íslenskra vísindamanna sem stunda krabbameinsrannsóknir. Þar með hefur vísindasjóður félagsins úthlutað 656 milljónum frá því að úthlutanir hófust árið 2015. Þetta er algjört afrek.”

Samhliða úthlutuninni úr vísindasjóði félagsins er einnig úthlutun úr Rynkeby-sjóði Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, í þriðja sinn, þar sem þrjár rannsóknir hljóta styrk upp á samtals 24,8 milljónir króna.

Sjóðurinn hefur haft byltingarkennd áhrif á rannsóknir hér á landi. „Þetta er auðvitað bara alveg stórkostlegt og vísindamennirnir sjálfir í raun og veru lýsa því best. Þau hafa kallað tilkomu sjóðsins byltingu,” bætir Halla við.

„Viðbótarfjármagn inn í sjóðinn frá því að hann var stofnaður hefur að mestu komið frá Krabbameinsfélaginu sem hefur lagt 329 milljónir inn í sjóðinn til viðbótar. Fyrirtæki hafa líka styrkt sjóðinn myndarlega og hafa framlögin verið stór sem smá en einn einstakur styrkur barst á síðasta ári að upphæð 50 milljónum króna,” segi Halla jafnframt.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Aðalfundur félagsins á morgun

Á morgun, laugardaginn 24. maí, fer fram aðalfundur Krabbameinsfélagsins. Fyrir fundinn verður samfélagsviðurkenning félagsins veitt í fjórða sinn, en hún er ætluð aðilum sem hafa stutt málstaðinn með eftirtektarverðum hætti. Til að mynda hlaut starfsfólk sjúkrahúsa um land allt viðurkenninguna í fyrra.

Í tengslum við fundinn stendur félagið einnig fyrir opnu málþingi undir yfirskriftinni „Viljum við að færri fái krabbamein?“ Þar verður fjallað um sóknarfæri í forvörnum og taka fulltrúar stjórnvalda og sérfræðingar félagsins þátt.

Við vitum að þekking fólks er að aukast. En við teljum hjá Krabbameinsfélaginu að í samfélaginu öllu getum við gert miklu meira, stjórnvöld geta gert miklu meira til þess að hjálpa okkur fólkinu í landinu að taka ákvarðanir sem að verða til þess að draga úr áhættu. Það er auðvitað allra allra best ef við getum komið í veg fyrir krabbamein. Ekki bara það að það sé til ofsalega góð meðferð heldur að geta komist hjá því,“ bætir Halla við að lokum

Málþingið hefst kl. 10:00, er gjaldfrjálst og öllum opið, auk þess sem því verður streymt.

Ef þú vilt styrkja Krabbameinsfélagið er bent á heimasíðu þess eða í síma 5401919

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert