„Þau dópa bara undir berum himni úti um allt“

Drengurinn var vistaður á Stuðlum frá því í desember, þar …
Drengurinn var vistaður á Stuðlum frá því í desember, þar til nýlega. Samsett mynd/Colourbox/mbl.is/Karítas

Faðir 15 ára drengs með fíknivanda, sem vistaður hefur verið á Stuðlum samkvæmt dómsúrskurði, neyddist til að útskrifa son sinn af meðferðarheimilinu fyrr í þessum mánuði, þrátt fyrir að það sé eina skjólið sem honum býðst.

Hann segir allt vaðandi í grasi á Stuðlum og að drengirnir þar séu endalaust undir áhrifum. Fíkniefnum sé ítrekað smyglað inn.

Ástandið á Stuðlum hafi verið þannig að það hafi í raun gert illt verra fyrir stöðu drengsins að vera þar.

Á Stuðlum var hann vistaður ásamt afbrotamönnum undir 18 ára og drengjum í harðri neyslu, en drengurinn á ekki heima í þeim hópi, enda vandi hans mun vægari og af öðrum toga. Faðirinn sagði í samtali við mbl.is fyrr á þessu ári að það væri algjört neyðarúrræði að hafa hann inni á Stuðlum, en á meðan hann væri í neyslu gætu þau ekki haft hann heima, enda fleiri börn á heimilinu.

Algjör óvissa fram undan 

Barna- og fjölskyldustofa hafði tekið ákvörðun um að útskrifa drenginn af Stuðlum þar sem ljóst væri að hann ætti ekki að heima þar. Foreldrarnir voru hins vegar fyrri til því þau gátu ekki réttlætt það að hafa drenginn áfram í þessu umhverfi.

Drengurinn lauk hefðbundinni meðferð á Stuðlum síðasta haust en ljóst var að hann þurfti á langtímameðferð að halda í kjölfarið. Slíkt úrræði var hins vegar ekki til staðar og því fór það svo að drengurinn var áfram vistaður á Stuðlum, enda skal hann, samkvæmt úrskurði, vistaður utan heimilis þangað til í desember á þessu ári. En nú er hann kominn heim og algjör óvissa fram undan fyrir fjölskylduna.

Faðirinn kallar eftir því að stjórnvöld komi á fót einhverju bráðabirgða meðferðarúrræði fyrir drengi með fjölþættan vanda sem þurfa að komast í langtímameðferð, en slíkt úrræði hefur ekki verið í boði frá því Lækjarbakka var lokað vegna myglu fyrir rúmu ári síðan. 

Skortur á úrræðum hefur aukið vandann 

Framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur og skrifstofustjóri Barnaverndar í Kópavogi hafa í samtölum við mbl.is lýst stöðunni sem mjög alvarlegri, þá sérstaklega hjá drengjum. Staðan í málefnum barna með fjölþættan vanda sé í raun verri núna en þegar talið var að botninum væri náð árið 2023.

Hóp­ur barna sem glím­ir við al­var­leg­an fíkni- og hegðun­ar­vanda hef­ur stækkað meira en hann hefði þurft að gera og vandi barn­anna hef­ur þyngst, vegna skorts á viðeig­andi meðferðarúr­ræðum á veg­um Barna- og fjöl­skyldu­stofu síðustu ár. Eitt­hvað sem hefði ekki þurft að ger­ast ef börn­in hefðu verið grip­in fyrr og unnið mar­kvisst í vanda þeirra.

Til­kynn­ing­um til barna­vernd­ar vegna af­brota, sjálfsskaða og neyslu barna og ung­menna hef­ur fjölgað til muna vegna þessa.

Í yngsta hópn­um, meðal barna í áhættu­hegðun, eru börn á grunn­skóla­aldri sem sækja ekki skóla og eru jafn­vel í útigangi.  

Auðveldara að ná í dóp en að panta pitsu

Faðirinn segir að í raun segir sé hægt að heimfæra stöðu sonar hans yfir á hvaða barn sem er sem glímir við sambærilegan vanda.

Biðin eftir því að meðferðarheimilið Lækjarbakki verði opnað á ný sé of löng. Mikið sé í húfi, ekki bara fyrir hann, heldu líka hin börnin sem bíða og fjölskyldur þeirra.

Til stendur að að færa starfsemi Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rangárvöllum, en úrræðið verður í fyrsta lagi tekið í notkun í lok september eða byrjun október. Greint var frá því á mbl.is fyrr í vikunni að asbest hefði fundist við framkvæmdir í húsnæðinu, en samkvæmt mennta- og barnamálaráðuneytinu mun það ekki tefja framkvæmdir, sem sagðar eru á áætlun.

Það eru því að minnsta kosti fjórir mánuðir þar til hægt verður að bjóða aftur upp á langtímameðferð fyrir drengi og fram undan er sumarið, þegar er það hvað auðveldast fyrir börn að þvælast úti og án eftirlits.

„Sumarið er eftir, allar hátíðarnar, allur þessi losarabragur, það er enginn skóli og ekki allir sem fá vinnu. Hvað eiga þessir krakkar að gera? Í góðu veðri þurfa þau ekki einu sinni að finna sér húsaskjól. Þau dópa bara undir berum himni úti um allt. Og það er nóg af dópi hérna. Það er auðveldara að fá sér dóp heldur en að panta pitsu,“ segir faðirinn í samtali við mbl.is

Enga trú á að opnað verði í haust

Það þurfi eitthvað úrræði strax sem geti brúað bilið þangað til opnað verður á Lækjarbakka á ný. Sjálfur hefur hann enga trú á að opnað verði í haust og segist hafa heyrt það frá þeim sem þekki til að raunhæft sé að horfa til þess að opnað verði á nýju ári. Hann er brenndur af því að hafa ítrekað fengið upplýsingar frá Barna- og fjölskyldustofu um úrræði fyrir soninn sem ekki hafi staðist.

„Ég geri mér grein fyrir því að það geta verið sex mánuðir, jafnvel heilt ár. Það þarf ekkert að vera mikið lengra. En bráðabirgðaúrræði er bara svo mikilvægt upp á að einhvers staðar verðum við að byrja,“ segir hann. Þá sé mikilvægt að fá fólk til starfa sem brennur fyrir því sem það gerir og hann nefnir að jafnvel megi reyna að kalla til einstaklinga sem hafi kynnst meðferðarkerfinu af eigin raun.

Hann bendir á að í covid-faraldrinum hafi verið hægt að koma á fót sóttvarnarhótelum með skömmum fyrirvara og því hljóti að vera hægt að koma einhverju úrræði á laggirnar til bráðabirgða. Sérstaklega í ljósi þess að um neyðarástand sé að ræða í málefnum barna með fjölþættan vanda, líkt og ítrekað hefur verið lýst yfir, meðal annars af umboðsmanni barna, ráðamönnum og starfsfólki barnaverndarþjónustunnar.

Ávísun á meira rugl að fara inn á Stuðla

Barnavernd í sveitarfélagi drengsins þarf að finna fyrir hann annað vistunarúrræði, en ljóst er að það er ekki til staðar, að minnsta kosti ekki á vegum hins opinbera. Hann gæti hugsanlega komist inn í einkarekið úrræði, en biðin eftir því getur verið löng.

„Ég er með hann heima þangað til eitthvað skýrist og er að vona að hann haldi sig á mottunni með ákveðna hluti svo ég geti haft hann heima. Ef hann fer í eitthvað rugl þá er það bara upp á Stuðla,“ segir faðirinn.

Að setja barnið á Stuðla sé þó ávísun á meira rugl, en á sama tíma sé ekki annar kostur í stöðunni. Það sé mjög erfitt fyrir foreldra að standa frammi fyrir því.

Það sé alveg viðbúið að þau þurfi að bíða að minnsta kosti fram á haust með að koma drengnum í eitthvert úrræði, þrátt fyrir úrskurðinn sem þau hafa í höndunum. 

„Þá þurfum við að taka stöðuna hvernig sumarið hefur verið, hvort hann sé tilbúinn að fara í skóla. Ef þetta gengur vel, þá viljum við auðvitað hafa hann heima. Ef hann fer eftir reglum og er ekki í neyslu þá er engin ástæða til að hann fari út af heimilinu.“


Vill að stjórnendur verði dregnir til ábyrgðar

Hann vill að stjórnendur Barna- og fjölskyldustofu verði dregnir til ábyrgðar, enda beri þeir ábyrgð á stöðunni eins og hún í er núna. Það sé kominn of langur tími af aðgerða- og úrræðaleysi. Allt líti mögulega vel út á yfirborðinu en raunin sé allt önnur.

„Það er alveg sama hvar þú ferð, það er ekkert sem undirstrikar það að eitthvað sé að virka þarna. Ekki neitt. Þetta er bara glansmynd en engin innistæða og þar ber þetta fólk mesta ábyrgð.“

Mikilvægt sé að hafa fjölbreytt úrræði í boði fyrir mismunandi skjólstæðinga. Það þurfi úrræði fyrir börn sem eru að leiðast inn á ranga braut, svo lokað úrræði fyrir þau sem eru komin í neyslu og annað fyrir þau sem þurfa á lengri meðferð að halda. Þá þurfi úrræði fyrir börn með geðrænan vanda sem einnig eru í neyslu. Ekki sé hægt að blanda þessum hópum saman, líkt og hefur verið gert.

Barnaverndarþjónustan hefur einmitt bent á mikilvægi þess að hafa fjölbreytt úrræði fyrir börn með mismunandi þarfir.

Faðirinn segir að mikilvægt sé að grípa börnin strax, greina vanda þeirra rétt og koma í viðeigandi úrræði. Ekki láta þau bíða. Það hafi skaðleg áhrif.

Þá sé ekki hægt að bjóða starfsfólki upp á það vinnuumhverfi eins og það er á Stuðlum. 

Hann vísar til brunans á Stuðlum í október, þegar 17 ára drengur lést. Þar hafi enginn verið dreginn til ábyrgðar, engum hafi verið sagt upp og enginn hafi sagt af sér.

„Ef þessir aðilar þurfa ekki að axla ábyrgð, hvað þá ef eitthvað svipað gerist aftur?“

Meðferðarúrræði þurfi að vera úti á landi 

Framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur sagði í viðtali við mbl.is fyrr á þessu ári að flækjustigið við að finna húsnæði undir meðferðarúrræði væri óþarflega mikið. Þá hefur verið talað um að leit að hentugu húsnæði hafi tekið lengri tíma en ella því ekki séu allir tilbúnir að hafa meðferðarheimili í sínu nærumhverfi.

„Það kemur í ljós þegar verið er að leita eftir úrræðum að það eru bæjarfélög, landeigendur og sumarbústaðaeigendur sem eru mótfallin því að svona eitthvað sé nálægt þeirra fallega garði,“ segir faðirinn.

Að hans mati er mikilvægt að meðferðarheimili fyrir börn og unglinga séu fjarri höfuðborgarsvæðinu og helst fjarri þéttbýli. Það dragi úr aðgengi að fíkniefnum og minnki líkur á stroki.

Þetta hefur líka innanbúðarfólk á Stuðlum bent á og kom Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, með þá hugmynd að opna aftur meðferðarheimili í Háholti í Skagafirði, en því úrræði var lokað árið 2017. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, sló hugmyndina hins vegar út af borðinu. Sagði hún að Háholt hentaði ekki, meðal annars vegna fjarlægðar frá höfuðborgarsvæðinu. Guðmundur Ingi Kristinsson, núverandi mennta- og barnamálaráðherra, hefur tekið undir þau sjónarmið.

„Hérna viljum við alls ekki hafa meðferðarúrræði, þar sem það er stutt í vini, stutt í neyslu, stutt í allt það sem þau þurfa. Úti á landi ferð þú ekki neitt. Ef þú ætlar að fara eitthvert, ertu tvo tíma að komast út á veg og þá er búið að tilkynna þig. Það verður líka að vera einhver virkni, til dæmis að vera með dýr og gefa þeim kost á að læra eitthvað. Ekki endilega eitthvað bóklegt, það er hægt að læra ýmis störf,“ segir faðirinn.

Gætu lent á kerfinu út lífið

Hann bendir á að þetta snúist ekki bara um börnin og hvernig þeim vegnar, heldur líka um allt fólkið í kringum um þau. Foreldra, systkini, ömmur, afa og vini. Það hafi áhrif á stóran hóp fólks þegar barn er í neyslu og afbrotum og fær ekki viðeigandi aðstoð.

„Ef það er ekki gert eitthvað strax þá eru þessir krakkar svo fljótir að fara í eitthvað sem þau ráða ekki við og svo í algjört rugl og alveg á botninn. Annaðhvort skemma þessi börn sig það mikið að þau verða á kerfinu út lífið og það kostar ansi mikið, svo er það sjálfsvígshætta, eða það gerist eitthvað eins og í fyrra, þau skemma ekki bara sitt líf, heldur þau skaða aðra. Þá ertu komin með enn aðra fjölskyldu sem þarf að líða fyrir það,“ segir hann og vísar til hnífstunguárásar á Menningarnótt í fyrra þegar 16 ára piltur varð 17 ára stúlku að bana.

„Kerfið er meingallað en við skulum ekki gleyma því að að það er fólk á bak við kerfið sem ber ábyrgð á því. Það fólk þarf að draga til ábyrgðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert