100 ára afmælisgjöf til íslenskra skákmanna

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands.
Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í tilefni af 100 ára afmæli Skáksambands Íslands leitar félagið aftur í rætur sínar og heldur Íslandsmótið í skák á Blönduósi, stofnstað félagsins.

Einnig stendur til að gera nánast allar útgáfur tímaritsins Skák aðgengilegar inni á timarit.is. Þetta segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambandsins, í samtali við mbl.is.

Tímaritið Skák hefur verið gefið út í nánast 70 ár og er tilgangur þess að greina frá því helsta í íslensku skáklífi. Það inniheldur einnig þrautir, skáksögulegar greinar og skákskýringar.

Gunnar segir að blaðinu sé ætlað að vera heimild um skáksöguna til framtíðar og því gleðiefni að tímaritið verði aðgengilegt á timarit.is – „eins konar gjöf félagsins til íslenskra skákmanna“.

Íslandsmót í skák 15.-21. júní

Íslandsmótið í skák verður haldið á Blönduósi 15.-21. júní og munu nánast allir sterkustu skákmenn landsins tefla um Íslandsmeistaratitilinn í skák.

Erlendir gestir munu jafnframt tefla og má þar fremstan í flokki nefna bosnísk-hollenska stórmeistarann Ivan Solokov, sem er kunnur innan skáksamfélagsins.

Að lokinni síðustu umferð mótsins, laugardaginn 21. júní, fer fram afmælishátíð SÍ með hátíðarkvöldverði.

Til stendur að mótið verði haldið á Blönduósi þar sem …
Til stendur að mótið verði haldið á Blönduósi þar sem Skáksamband Ísland var stofnað fyrir 100 árum. mbl.is/Sigurður Bogi

Daginn eftir verður haldið hraðskákmót undir heitinu Blönduós Blitz. Gunnar væntir þess að mótið verði sterkt og að þekktir erlendir skákmenn muni taka þátt.

Skáksamband Íslands var stofnað þann 23. júní 1925 í læknisbústaðnum á Blönduósi af sex norðlenskum skákfélögum. Af þeirri ástæðu stendur til að Íslandsmótið verði haldið á Blönduósi, og hefur sveitarfélagið Húnabyggð beðið um afnot af læknisbústaðnum í tilefni mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert