Kærunefnd útlendingamála hefur synjað beiðni Oscars Anders Bocanegra Florez um alþjóðlega vernd hér á landi. Hann þarf því að yfirgefa Ísland í byrjun júní og sætir endurkomubanni í tvö ár.
Þetta kemur fram í úrskurði Kærunefndar útlendingamála. RÚV greinir frá.
Oscar, sem er 17 ára og frá Kólumbíu, hefur búið hjá íslenskum fósturforeldrum sem hafa barist fyrir því að hann fái að dvelja hér á landi.
Hann flúði til Íslands með föður sínum árið 2022 eftir að glæpamenn í Kólumbíu hótuðu þeim lífláti. Faðir Oscars er sagður hafa beitt hann ofbeldi og hafa afsalað sér forræði yfir honum.
Í október á síðasta ári var Oscar sendur úr landi með föður sínum eftir að hafa fengið synjun um vernd hér á landi. Oscar endaði einn á götunni í Bógotá í mánuð áður en fósturfjölskyldan kom honum aftur til Íslands.
Oscar kærði niðurstöðu Útlendingastofnunar um að synja honum um alþjóðlega vernd til Kærunefndar útlendingamála, meðal annars á þeim forsendum að hann sé fylgdarlaust barn, en fram hefur komið að móðir hans treysti sér ekki til að sjá um hann.
Kærunefndin tekur hins vegar ekki undir þau rök.