„Ég þigg allar afsakanir sem ég fæ til þess að heimsækja Ísland,“ segir Mark Crowther, prófessor í læknisfræði við McMaster-háskólann, en hann var staddur hér á landi á dögunum.
Sló hann þar tvær flugur í einu höggi með Íslandsferðinni, því Crowther vinnur nú að rannsókn í samstarfi við íslenska kollega sína um bætta notkun blóðþynningarlyfsins warfarin, en á sama tíma er hann einnig mikill áhugamaður um fjölspilunartölvuleikinn Eve Online, sem hélt sína árlegu ráðstefnu, FanFest, í byrjun mánaðarins.
Segja má að Crowther sé sannkallaður Íslandsvinur, en þetta er í fjórða sinn á síðustu þremur árum sem hann kemur til landsins. Hann segir áhuga sinn á Íslandi hafa kviknað á framhaldsskólaárum sínum, en þá hafi hann unnið verkefni um landið. „Og Ísland var mjög sérstakt land á þeim tíma, sem kveikti í mér áhugann á að ferðast hingað einhvern tímann á lífsleiðinni,“ segir Crowther.
Hann bætir við að fyrir daga netsins hafi hann tekið þátt í pennavinafélagi, og hann hafi þar eignast einn slíkan hér á Íslandi. „Og ég og hún sendum hvort öðru bréf margoft fyrir um fjörutíu árum eða svo,“ segir Crowther, en pennavinskapurinn rann á endanum sitt skeið. „En hann gaf mér þennan langtímaáhuga á Íslandi.“
Einn tilgangur ferðalagsins að þessu sinni var að funda með Páli Torfa Önundarsyni, prófessor emeritus í blóðsjúkdómum og fyrrverandi yfirlækni blóðmeinafræðideildar Landspítalans, en þeir vinna nú saman að rannsókn, sem byggist á vinnu Páls Torfa undanfarin ár. „Þetta er mjög áhugavert, því ekki bara get ég unnið með Páli Torfa, heldur leggjum við mjög hart að okkur til þess að byggja ofan á þá tækni sem hann hefur þróað,“ segir Crowther.
„Það sem við erum að vinna með á leikmannamáli er hvernig við þynnum blóðið til að fyrirbyggja blóðtappa. Ástæðan fyrir því er að í mörgum tilfellum geta blóðtappar myndast á hættulegan hátt og valdið skaða eins og lömunum og hjartadrepi eða dauða. Og nú í mörg, mörg ár hefur verið til þetta blóðþynningarlyf sem heitir warfarin, en því var fyrst lýst fyrir rúmlega 70 árum eða svo,“ segir Crowther.
Warfarin auk örfárra skyldra K-vítamínhemla var lengstum eina blóðþynningarlyfið á töfluformi sem hægt var að taka, og margar rannsóknir sem sýndu að það var mjög skilvirkt við að koma í veg fyrir blóðtappa. Svo fyrir rúmum 15 árum komu fram nýjar tegundir blóðþynningarlyfja, sem eru einfaldari í notkun en warfarin.
„Vandinn við warfarin er að það þarf að taka reglulegar blóðprufur með því, sem þarf ekki jafnmikið með nýju lyfjunum. Þau eru hins vegar ekki jafn áhrifarík undir öllum kringumstæðum og warfarin. Þess vegna er warfarin ennþá notað af milljónum manna um víða veröld,“ segir Crowther, sem spáir því jafnframt að warfarin verði enn í almennri notkun hjá milljónum manna eftir áratug. „Það er ekkert á förum.“
„Það sem Páll Torfi gerði ásamt teymi sínu var að þróa betri leið til þess að mæla og stýra blóðþynningu af völdum warfarins. Og með því að þróa þessa betri aðferð hafa þau líklega gert þetta áratugagamla lyf enn áhrifaríkara vegna þess að eftirlitið með blóðinu er orðið betra. Sé blóðþynningarlyfið áhrifaríkara eða meðferð þess skilvirkari, þá mun það draga úr tíðni blóðtappa.“
Crowther segir að Páll Torfi hafi varið um 15 árum í þessar rannsóknir sínar og að kynna þær á alþjóðavettvangi á ráðstefnum og í tímaritsgreinum, en að hann sjálfur hafi ekki gefið þeim nægan gaum fyrr en fyrir tveimur árum eða svo, þegar hann las þær rannsóknir sem Páll Torfi og teymi hans gaf út.
„Og það er næsta víst að þessi aðferð gerir þetta mjög, mjög gamla lyf, sem er einnig mjög, mjög ódýrt, mun skilvirkara. Ekki með því að breyta lyfinu heldur einfaldlega með því að breyta eftirlitinu með notkun þess. Þetta er stórmerkilegt,“ segir Crowther.
Þetta nýja blóðstorkupróf sem þróað var hér á Landspítalanum nefnist Fiix-PT eða Fiix-blóðstorknunartími, en Crowther segir að einn helsti kostur þess sé sá að Fiix-prófið nýti sömu mælitæki og fyrra blóðstorkupróf nýtti einnig. „Tæknin er nákvæmlega sú sama, þannig að rannsóknarstofur þurfa ekki að breyta neinu hjá sér nema hvarfefninu. Og í sannleika sagt krefst það ekki af læknum að breyta neinu heldur, því þeir geta nýtt lyfið á sama veg, þeir munu bara fá áreiðanlegri mynd af áhrifum þess.“
Aðspurður segir Crowther þetta jafnframt munu greiða fyrir upptöku þessarar aðferðar, þar sem það sé auðvelt að taka hana upp. „Ef við sýnum fram á að þetta sé skilvirkari leið, þá er það mjög beinn og breiður vegur til að taka hana upp, því að það breytist í raun og veru ekkert, nema niðurstöður prófanna verða áreiðanlegri,“ segir hann.
Hann hrósar Páli Torfa og teymi hans fyrir þá miklu vinnu sem hafi verið lögð í þessar rannsóknir, en hér standi smæð landsins þeim mögulega fyrir þrifum. „Eins og þú getur ímyndað þér þá er fjöldi þeirra sjúklinga sem hægt er að rannsaka á Íslandi mjög lítill, því þið eruð merkilega heilsuhraust þjóð,“ segir Crowther og bætir við að Norður-Ameríkubúar búi ekki við slíka gæfu.
Ástæðurnar fyrir samstarfinu eru því tvenns konar. „Sú fyrsta er að Páll Torfi mun fara á eftirlaun á einhverjum tímapunkti og ef enginn annar tekur upp þráðinn stöðvast þetta með honum. Hin ástæðan er sú að McMaster-háskólinn sem ég starfa við hefur rúmlega hálfrar aldar sögu við að rannsaka hvernig best sé að nota blóðþynningarlyf.“
Crowther segir að McMaster-háskólinn hafi komið að sumum af mikilvægustu rannsóknum á þessu sviði undanfarna áratugi. „Og það þýðir að við höfum úrræðin til þess að gera mjög stórar rannsóknir þar sem við berum saman notkun warfarins upp á gamla mátann og notkunina með hinu nýja prófi til þess að sanna hvort þessi nýja aðferð sé í raun betri,“ segir Crowther.
En hversu merkilegt er það að vísinda- og fræðimenn í Kanada og Íslandi geti unnið svona saman þvert yfir landamæri á máta sem hefði varla verið mögulegur í fyrndinni og mögulega breytt milljónum mannslífa til hins betra?
„Þetta er góð spurning. Án nokkurs vafa hefði svona rannsókn alveg getað átt sér stað á fyrri tímum, en þá gerðist það mjög sjaldan og tók mjög langan tíma,“ segir Crowther. „Tæknin leyfir okkur nú að deila upplýsingum mun hraðar og teyminu að vera upplýst um framgang mála nær samstundis. Þegar við ljúkum tilraunum okkar við McMaster, þá veit teymið við Landspítalann af niðurstöðunum næsta morgun.“
Rannsóknir Crowthers eru ekki eina Íslandstenging hans, því hann hefur spilað fjölspilunartölvuleikinn EVE Online í nærri því áratug. Crowther segist hafa fylgst með þróun leiksins nánast frá upphafi árið 2003, en leikurinn fagnar á þessu ári 22 ára afmæli sínu. Hann hafði hins vegar heyrt að EVE Online væri mikill tímaþjófur, og því hafi hann beðið með að hefja leik allt fram til ársins 2016.
Sonur Crowthers er forritari og verkfræðingur, og fékk hann einnig áhuga á leiknum eftir að faðir hans sagði honum frá honum. „Ég fékk hann til þess að byrja að spila,“ segir Crowther, en feðgarnir fóru saman á FanFest í ár. „Það sem heillar mig við leikinn er hvað hann er ótrúlega margslunginn.“
Blaðamaður skýtur hér inn í að hann sjálfur hafi prófað leikinn fyrir nokkrum árum en komist að því að hann hefði ekki tíma fyrir annað ævistarf.
„Fyndið að þú skulir segja þetta, aðrir hafa sagt þetta við mig líka. Ég er frekar upptekinn maður,“ segir Crowther og útskýrir að hann hafi yfirumsjón með rúmlega þúsund læknum í starfi sínu á McMaster. „Samt finn ég tímann til þess að spila leikinn, því hann er mín leið til að slaka á. Maður þarf að hugsa mjög mikið, en hann er líka algjörlega frábrugðinn því sem ég geri í raunheimum, þannig að það er indælt að fara að spila hann.“
Crowther bætir við að hann sé mjög hrifinn af því samfélagi sem CCP-fyrirtækið hefur náð að byggja upp í kringum leikinn. „Það er mjög gott samfélag í EVE, sem ég held ekki að aðrir tölvuleikir búi að. Við höfum hitt fjölda fólks sem ég hefði aldrei hitt annars,“ segir Crowther og bætir við að sér þyki frábært að geta blandað geði við fólk sem eigi sér svo ólíkan bakgrunn.
„Þetta er mikið sameiningarafl og tölvuleikir eins og EVE sérstaklega, en mér finnst EVE og FanFest algjörlega sér á báti,“ segir Crowther, en þetta er í annað sinn sem hann sækir FanFest hér á landi og í þriðja sinn sem hann fer á viðburð á vegum CCP. „Ég er sannfærður um að þetta er einstakt umhverfi, þar sem EVE-samfélagið er stórkostlegt, og FanFest er fyrir marga hápunktur ársins,“ segir Crowther, sem vill hrósa öllum hjá CCP fyrir að hafa haldið leiknum gangandi í 22 ár. „Það er stórmerkilegt á tímum hverfulleikans,“ segir hann að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.