Kaffihlaðborð af gamla skólanum á Rósakaffi

Kræsingar á kaffihlaðborðsins.
Kræsingar á kaffihlaðborðsins. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum lengi búin að hugsa um að það væri gaman að halda við þessum gömlu tertum sem hafa verið ríkjandi í veislum í okkar fjölskyldu,“ segir Jóna Sigríður Gunnarsdóttir í samtali við mbl.is.

Jóna rekur kaffihúsið Rósakaffi í Hveragerði ásamt eiginmanni sínum en þau hafa undanfarin þrjú ár verið með kaffihlaðborð í boði fyrir gesti á sunnudögum.

Jóna og Guðmundur, eigendur Rósakaffis, ásamt syni sínum Gunnari Smára.
Jóna og Guðmundur, eigendur Rósakaffis, ásamt syni sínum Gunnari Smára. Ljósmynd/Aðsend

Peruterta, marengsterta, rúgbrauðsterta og brauðterta á boðstólnum

„Það er gamaldags peruterta, ýmsar marengstertur, rúgbrauðsterta og svona hitt og þetta. Við ákváðum að gera tilraun og athuga hvort fólk væri til í þetta,“ segir Jóna um tildrög hlaðborðsins. Nú hafa þau boðið upp á hlaðborðið í þrjú ár.

„Það er gaman að smakka alls konar tegundir,“ segir Jóna um úrvalið. Auk sætu tertnanna segir hún þau stundum hafa boðið upp á skonsur og flatkökur. „Svo erum við alltaf með þrjár tegundir af brauðtertum og heitan rétt,“ bætir hún við.

Tertur á Rósakaffi.
Tertur á Rósakaffi. Ljósmynd/Aðsend

Gengið fram úr björtustu vonum

„Þetta hefur gengið fram úr björtustu vonum,“ segir Jóna um kaffihlaðborðið sem verður áfram á dagskrá á sunnudögum.

„Við höfum rétt svo sleppt því yfir versta vetrarveðrið en erum búin að bæta við hlaðborði á hátíðardögum,“ segir Jóna. „Eins höfum við haft hlaðborð á sumardaginn fyrsta, sautjánda júní, á bæjarhátíðinni hérna og svona.“

Kaffihlaðborðið segir Jóna verið kjörið fyrir þá sem ekki hafi fengið boð í fermingu í ár en hlaðborðið myndi sæma sér vel í slíkri veislu.

Brauðtertur af dýrari gerðinni.
Brauðtertur af dýrari gerðinni. Ljósmynd/Aðsend

Dubai-terta

„Verið bara ánægð að vera ekki boðið í fermingu, þetta er miklu ódýrara en að fara í fermingarveislu,“ svarar Jóna í hálfkæringi, þegar blaðamaður spurði hvað hún hefði að segja við fólk sem ekki væri boðið í fermingarveislu í ár.

Jóna segir hópinn sem sækir hlaðborðið vera mjög blandaðan hóp á blönduðum aldri. Það sé bæði heimafólk úr Hveragerði og gestir úr Reykjavík og fleiri byggðarlögum. „Við eigum mikið af fastagestum víða að,“ segir Jóna um viðskiptavinina á Rósakaffi.

Kaffihlaðborðið verður á sínum stað á sunnudaginn.

Eigendur Rósakaffis segja að þar verði klassísku terturnar í boði. Hjónin séu þó „alltaf að prófa eitthvað nýtt,“ til dæmis verði nýstárleg pistasíuterta eða „Dubai-terta“ uppi á borðum á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert