Leitarbeiðnum vegna týndra barna hefur fjölgað um tæplega 100 prósent frá því í fyrra. Það sem af er ári hafa borist 142 leitarbeiðnir en á tímabilinu janúar til júní á síðasta ári voru leitarbeiðnirnar 74 talsins. Er þá bæði um að ræða börn sem strokið hafa af meðferðarheimilum eða úr neyðarvistun, og börn sem eru utan meðferðarheimila.
Leitað hefur verið að 51 barni á árinu, og þar af eru 22 sem var leitað að í fyrsta skipti.
Flestar eru leitarbeiðnirnar 25 fyrir eitt og sama barnið, sem ítrekað hefur tekist að strjúka af meðferðarheimilum og úr neyðarvistun á vegum Barna- og fjölskyldustofu. Ekki hefur verið leitað svo oft að sama barninu á síðustu árum.
Þá hefur verið leitað að tíu börnum fjórum sinnum eða oftar á árinu og einu sinni verið leitað að 22 börnum.
45 strok eru skráð frá meðferðarheimilunum Blönduhlíð á Vogi, sem opnað var í febrúar, og Stuðlum, en allt árið 2024 voru skráð 49 strok frá Stuðlum.
Guðmundur Fylkisson lögreglumaður er sá eini sem hefur það að fullu starfi að leita að týndum börnum og hefur gert það í um áratug. Þegar hann fer í frí er enginn sem markvisst sinnir leit að þessum börnum þegar leitarbeiðnir berast og foreldrar eru þá oft í öngum sínum eða fara sjálfir út að leita.
Guðmundur tilheyrir lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en hann tekur einnig að sér leit að börnum úr öðrum landshlutum ef grunur er um að þau séu á höfuðborgarsvæðinu, þó málið sé á forræði lögreglunnar í umdæminu sem þau strjúka frá.
Þá fer hann einnig út fyrir höfuðborgarsvæðið í leit að sínum börnum, eins og hann kallar þau, en hann hefur unnið sér inn traust bæði foreldra og barna síðustu ár. Hann eltist við börnin sín á Suðurnesjum, á Suðurlandi og Vesturlandi.
„Ef ég fæ upplýsingar um að þau séu komin í burtu þá fer ég á eftir þeim, í samstarfi lögregluna þar,“ útskýrir Guðmundur.
Þegar hann er ekki til taks vandast hins vegar málið.
„Þegar ég fer í frí, og þetta er það sem foreldrarnir kvarta yfir, þá hafa þau engan einn aðila sem þau geta hringt í til að kanna hvað er í gangi. Þá fer bara kerfið í þann farveg eins og þetta var áður en ég byrjaði. Þá eru það bara vaktirnar á hverri stöð fyrir sig sem reyna að gera eitthvað. En það er enginn úti að leita, þannig lagað séð.“
Ef foreldrar hringja með ábendingar er kannað hvort bíll er laus í nágrenninu til að skoða málið en engin markviss leit fer fram.
Samfélaglögreglan hefur þó aðeins verið að stíga inn í þetta verkefni að sögn Guðmundar, en þau eru ekki að allan sólarhringinn, líkt og hann.
„Vaktirnar eru upplýstar um það þegar ég er í fríi og leitarbeiðnirnar koma. En það eru vaktaskipti þrisvar á sólarhring á hverri stöð og þau þurfa að sinna öllum verkefnum sem koma upp á viðkomandi svæði. Það er því ekki einhver einn ákveðinn sem fylgir þessu eftir.“