Prófessor í sálfræði segir erlenda veðmálamarkaðinn látinn liggja „algjörlega afskiptalausan“ á Íslandi þrátt fyrir að hann sé ólöglegur. Enginn sé sáttur við núverandi kerfi, hvorki þeir sem eru hlynntir lögleiðingu erlendra veðmálasíðna né þeir sem eru mótfallnir því.
Hann segir nauðsynlegt að bregðast einhvern veginn við núverandi stöðu og að þau skref verði fyrst og fremst að taka mið af lýðheilsu þjóðarinnar.
Undanfarin tuttugu ár hefur spilavandi orðið algengari meðal Íslendinga og þá aðallega meðal ungra karlmanna.
Gríðarlegur vöxtur hefur samhliða orðið í veðmálavæðingu íþrótta sem í dag eru orðin stærsta tegund peningaspila í netheimum.
Daníel Þór Ólason prófessor í sálfræði hélt erindi á málþingi um veðmálastarfsemi fyrr í mánuðinum þar sem hann kynnti nýjar og eldri niðurstöður rannsókna sinna.
Þar fjallaði hann meðal annars um svokallaða veðmálavæðingu en það vísar til þess þegar atburðir eða viðburðir sem hafa í sjálfu sér ekkert með veðmál að gera hafa verið tekin yfir af veðmálamarkaðnum.
Daníel Þór segir ungt fólk á Íslandi víða fá þau skilaboð að það að stunda veðmál sé tækifæri til að eignast peninga – ef maður er snjall.
„Við sjáum þetta alls staðar í kringum okkur, á samfélagsmiðlum og í auglýsingum, í blöðum og fólk sem er að lýsa íþróttum, eða í hlaðvörpum og hjá áhrifavöldum. Alls staðar er verið að leggja áherslu á að veðmál séu eðlilegur hluti af leiknum, íþróttinni, það sé eðlilegt að leggja smá undir og græða smá - bara smá krydd í tilveruna. Það talar enginn um að tapa peningunum. Bara hvernig hægt er að vinna,“ segir Daníel Þór og tekur fram að þetta einskorðist ekki við Ísland.
„Íþróttaveðmál eru langvinsælasta peningaspilið á netinu. Og þar er fótboltinn langstærstur. Þar eru gríðarlegir peningar sem flæða um. Menn eru að áætla að vöxturinn í íþróttaveðmálum séu sirka 10 til 11 prósent á ári, bæði í fjármunum og fjölda þeirra sem leggja stund á íþróttaveðmál.“
Niðurstöður rannsókna sýna að spilavandi meðal Íslendinga hefur hækkað á tímabilinu 2005 til 2023, eða frá 1,6% í 2,3%. Ef gögnin eru skoðuð út frá kyni sést að algengið meðal kvenna hefur lækkað örlítið, eða úr 0,8% í 0,5%. Á sama tíma hefur vandinn aðeins aukist meðal karla, eða frá 2,4% í 4%.
Mikill munur er þó eftir aldurshópum en vandinn er mestur hjá ungum mönnum á aldrinum 18 til 25 ára. Þannig höfðu til að mynda 31,6% karla á þessum aldri stundað veðmál á erlendum vefsíðum á síðustu tólf mánuðum þegar rannsókn var gerð árið 2023.
Samkvæmt niðurstöðum Daníels eru mennirnir ungu helst að veðja á íþróttir á netinu. Eru slík veðmál mun algengari hjá þeim en til dæmis þau sem tengjast póker eða spilavítum á netinu.
Daníel Þór segir íþróttaveðmál hafa breyst mikið frá því menn fóru út í sjoppu, settust niður og fylltu út þrettán leikja seðil.
„Hér áður fyrr þurfti maður að fara í sjoppuna til þess að kaupa seðil. Svo var þetta komið á netið og þá fór maður í heimatölvuna eða vinnutölvuna. Í dag gengurðu með spilavítið í vasanum – þú ert með það í símanum,“ segir Daníel Þór.
„Þú getur verið að veðja á meðan að þú ert í rómantískum dinner með konunni á fínum stað, í sófanum heima eða á klósettinu. Alls staðar er tækifæri til að kíkja í símann og henda í veðmál.
Daníel segir mörg önnur ríki hafa gripið til aðgerða í von um að stemma stigu við vandanum, til að mynda með því að láta spilarana ávallt skrá sig inn og takmarka hvað þeir geta eytt miklum fjármunum í veðmál á hverjum degi, viku eða mánuði.
Í Noregi og Finnlandi hafa þannig verið stigin skref til þess að takmarka eyðslu spilara í veðmál þar sem sett eru hámarksupphæð sem spilari getur tapað í hverjum mánuði og jafnframt þurfa spilarar að setja sín eigin takmörk. Í Svíþjóð hafa einnig verið stiginn skref þar sem upphæðin sem spilari getur eytt I peningaspil tekur mið af fjárhag viðkomandi og í Þýskalandi hafa verið sett hámark 1000 evrur á mánuði á veðmál á netinu, en. „Ef þú ert stórtækur spilari sem þarf rýmri fjárheimild til að spila, þá þarftu að sýna að þú hafir efni á því.“
Hvort sem starfsemi einhverra erlendra fyrirtækja verður lögleidd eða ekki segir Daníel að mikilvægt sé að grípa til aðgerða til að hamla ólöglegri starfsemi veðmálafyrirtækja. Til að mynda er hægt að gera það með því að takmarka flutning fjármuna á notendareikninga þessar fyrirtækja og einnig með ip-tölu banni og þannig takmarka umferð íslendinga á þessar veðmálasíður.
„Menn eru farnir að hugsa á þessum nótum. Hér virðist eins og enginn sé að hugsa neitt. Við erum með kerfi sem allir eru ósáttir við. Þau fyrirtæki sem eru með starfsemi hér á landi eru ósátt við þetta kerfi. Þeir sem vilja meira frelsi eru líka ósáttir við þetta kerfi. Einhverju verðum við að breyta, og ef við ætlum að gera það þá verðum við að setja fókusinn á lýðheilsu.“