Helga Vala Helgadóttir, lögmaður Oscars Anders Bocanegra Florez, ætlar að leggja mál Oscars fyrir dómstóla þar sem hún segir niðurstöðu Kærunefndar útlendingamála vera „lagalega ranga“.
Oscar hafi enn ekki fengið sjálfstæða efnislega skoðun á sinni umsókn heldur fylgt sjálfkrafa með umsókn föður síns.
„Við vorum mjög vongóð um að þetta færi vel vegna þess að málið hans er einstakt og aðstæður hans algjörlega einstakar. Mér finnst þessi niðurstaða efnislega röng,“ segir Helga í samtali við mbl.is.
„Það eina sem hægt er að gera núna, eins undarlega og það hljómar, þá þarf að óska eftir því að þetta sama stjórnvald og tók þessa ákvörðun fresti réttaráhrifum ákvörðunarinnar á meðan málið er borið undir dómstóla.“
Það er mat Helgu að leggja verði málið fyrir dómstóla til að fá metið hvort það rétt sé að Oscar „fái ekki einu sinni að senda inn umsókn“.
„Þetta snerist um það. Út af nýjum útlendingalögum þá er það metið, þegar verið er að leggja inn umsókn aftur, hvort aðstæður viðkomandi eru taldar hafa breyst eða ekki. Aðstæður hans eru allt aðrar núna en áður,“ segir Helga.
Ítrekar Helga að Oscar kom fyrst til Íslands í fylgd forsjárforeldris, föður síns, sem fékk synjun á sínum tíma og börnin hans fylgt sjálfkrafa með.
Þannig hafi Oscar aldrei fengið sjálfstæða efnislega skoðun á sinni umsókn.
„Að það skuli vera látið eins og hann sé í nákvæmlega sömu stöðu og þess vegna megi hann ekki leggja inn nýja umsókn, mér finnst þetta bara lagalega röng niðurstaða.“
Helga segir stöðu Oscars allt aðra í dag en þegar hann kom fyrst til Íslands.
„Í fyrsta lagi er hann fylgdarlaust barn núna, sem hann var ekki síðast. Í öðru lagi eru stjórnvöld búin að sannreyna að það er enginn í Kólumbíu að fara að taka á móti honum. Það er ekki öruggt að senda hann út,“ segir hún. Ef horft sé á málið út frá lógík þá sé fjölskylda á Íslandi sem vilji hugsa um hann og sem hefur verið falið að annast hann.
„Að stjórnvöld hafni því er bara rangt.“
Á hvaða grunni er því hafnað? Hefur það að gera með að fósturforeldrar hans hafi ekki forræði yfir honum?
„Nei. Það er ekki verið að hafna efnislega, það er bara verið að neita honum um að leggja inn umsóknina. Það er ekki verið að segja að þau geti ekki séð um hann. Það er ekki verið að segja að það yrði ekki mikið betra fyrir hann og hans hagsmuni. Það er bara verið að neita honum um að umsóknin hans verði skoðuð hérna á Íslandi. Þetta er bara svo galið.“
Barnavernd á Suðurnesjum hefur mælt eindregið gegn því að Oscari verði brottvísað. Í greinargerð þess efnis segir að Oscar hafi dvalið á Íslandi í þrjú ár, sem sé langur tími í lífi 17 ára drengs „í leit að öryggi og stöðugleika“.
Segir einnig að Oscar hafi ítrekað lýst slæmri meðferð og miklu ofbeldi af hendi föður síns, bæði á Íslandi og í Kólumbíu, og í viðurvist vitna. Faðir hans hafi yfirgefið hann á flugvellinum í Kólumbíu eftir að hafa fengið synjun um vernd hér á landi. Eftir það hafi Oscar „búið við illan leik á götunni“ í Kólumbíu, þar til hann kom aftur til Íslands með fósturforeldrum sínum.
Þá hafi Barnavernd ekki tekist að ná sambandi við föður Oscars og telur nú ljóst samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að hann vilji ekki fara með forsjá sonar síns, en faðir hans hafi ítrekað reynt að afsala sér forsjá hans og óskað meðal annars eftir að forsjá færi til barnaverndarþjónustu Hafnarfjarðar.
Í ljósi aðstæðna hefur Barnavernd miklar áhyggjur af heilsu og velferð Oscars ef hann yrði sendur aftur til Kólumbíu. Hann hafi öðlast öryggi og stöðugleika á Íslandi og hagsmunir hans séu því að vera áfram hér á landi.
Þá bendir Barnavernd á að Oscar er fylgdarlaust barn og því ber að taka sérstakt tillit til hans og hagsmuna hans í samræmi við barnaverndarlög og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.