Staða Sigurðar Inga veikist mikið

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, nýtur aðeins stuðnings um 19% stuðningsmanna Framsóknar til þess að gegna áfram formennsku í flokknum. Það er þó hærra hlutfall en meðal allra svarenda í könnun Maskínu, en 17% þeirra nefndu Sigurð Inga sem næsta formann flokksins.

Óhætt virðist því að fullyrða að staða Sigurðar Inga í forystu flokksins sé afar veik, en fylgi flokksins hefur ekki heldur styrkst frá kosningum. Lagt hefur verið til að flokksþingi Framsóknar verði flýtt, en það kýs formann.

Könnunin var gerð fyrir hlaðvarpið Komið gott! í umsjón þeirra Ólafar Skaftadóttur og Kristínar Gunnarsdóttur. Það að spyrja um næsta formann kemur vel heim og saman við þá yfirlýstu ritstjórnarstefnu þess, að fara frekar í manninn en málefnin.

Niðurstöður könnunar Maskínu 15. til 20. maí 2025.
Niðurstöður könnunar Maskínu 15. til 20. maí 2025.

Willum og Lilja vinsæl

Bæði Willum Þór Þórsson og Lilja Alfreðsdóttir fengu mun meiri stuðning í könnuninni til þess að verða næsti formaður Framsóknar í könnun Maskínu, sem gerð var í liðinni viku, á því hver væri best fallinn til þess að verða næsti formaður Framsóknarflokksins.

Þegar horft er til stuðningsmanna Framsóknar fékk Willum Þór 33% fylgi, en Lilja 29%. Könnunin var gerð um það leyti sem kosningabarátta Willums til forseta Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) stóð sem hæst, en hann hlaut afgerandi kosningu í embættið um síðustu helgi.

Frami Willums í íþróttahreyfingunni setur að líkindum strik í þessa reikninga, því ólíklegt verður að teljast að hann blandi sér aftur í stjórnmálin í bili, a.m.k. á meðan hann situr á forsetastóli ÍSÍ.

Á hinn bóginn virðist Lilja Alfreðsdóttir hvergi nærri hætt í stjórnmálum, hefur sig talsvert í frammi á þeim vettvangi, enda varaformaður Framsóknarflokksins.

Einar Þorsteinsson, oddviti flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, hlaut 6% meðal kjósenda Framsóknar en 10% í heildina, en aðrir mögulegir formannskandídatar mun minna, samtals 13% hjá framsóknarmönnum en 9% í heild.

Sjá má nokkurn mun á afstöðu stuðningsfólks Framsóknar og allra svarenda í könnuninni, sem draga mætti ýmsar ályktanir af, en hann er ekki verulegur.

Fylgið stendur í stað

 Framsóknarlokkurinn galt sem kunnugt er afhroð í alþingiskosningum síðastliðið haust, fékk aðeins 7,8% fylgi og fimm þingmenn. Allir ráðherrar flokksins nema formaðurinn féllu út af þingi, en hann hélt naumlega velli sem 2. maður á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Í kosningunum 2021 hlaut flokkurinn 17,3% atkvæða og 13 menn kjörna.

Fylgi flokksins í skoðanakönnunum á landsvísu hefur sáralítið hreyfst frá kosningum, mældist 7% í könnun Maskínu, sem birt var í gær, og 6% í könnun Gallup í lok apríl.

Framsóknarflokkurinn er þó ekki einn stjórnmálaflokka um það, fylgi þeirra flestra hefur staðið í stað frá kosningum, nema Samfylkingin, sem sótt hefur mjög í sig veðrið, og Flokkur fólksins, sem misst hefur nær helming fylgis síns á því tæpa hálfa ári.

Verður flokksþingi flýtt?

Töluverð hreyfing er fyrir því í Framsóknarflokknum að flýta flokksþingi, þá væntanlega til þess að breyta forystusveit flokksins. Nefnt er að formaðurinn þurfi að axla ábyrgð á kosningaósigrinum í haust, en til þessa hafa flokksmenn látið vera að bera gagnrýni á Sigurð Inga á torg.

Á vettvangi flokksins kom fram tillaga í upphafi árs um að flýta flokksþingi. Hún nýtur töluverðs fylgis sveitarstjórnafólks, sem gjarnan vill að flokkurinn öðlist nýja ásýnd fyrir sveitarstjórnakosningar á næsta ári. Stuðningsmenn Sigurðar Inga hafa hins vegar þæft málið, en endanleg ákvörðun verður ekki tekin fyrr en á miðstjórnarfundi í haust. Næsta reglulegt landsþing þarf að boða ekki síðar en vorið 2026.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, tilviljunarkennt úrtak 18 ára og eldri úr þjóðskrá og svara aflað á netinu. Þau eru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur, búsetu og menntun til þess að endurspegla þjóðina. Könnunin fór fram dagana 15. til 20. maí 2025 og voru svarendur 1.158 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert