Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í gærkvöldi afskipti af hópi ungmenna sem var með ógnandi tilburði og áreitti fólk í Breiðholti. Málið var unnið með aðkomu barnaverndar, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Þá var maður handtekinn í hverfi 105 í gærkvöldi eftir að hafa reynt að fjárkúga annan mann. Skýrsla var tekin af sakborningi og honum sleppt í kjölfarið.
Í sama hverfi var var maður handtekinn vegna líkamsárásar, en sá var í annarlegu ástandi vegna fíkniefna og bíður skýrslutöku hjá lögreglu.
Í gærkvöldi og í nótt sektaði lögregla einnig töluvert marga ökumenn fyrir hin ýmsu brot, meðal annars fyrir nagladekk, filmur í fremstu hliðarrúðum, akstur án ökuréttinda, of hraðan akstur og vöntun á skráningarmerkjum. Þá voru einnig nokkrir ökumenn teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.