Missti vinnuna og segir nú sögu Grindvíkinga

Kristín þekkir sögu bæjarins vel enda fædd og uppalin í …
Kristín þekkir sögu bæjarins vel enda fædd og uppalin í Grindavík og starfað hjá bænum síðastliðin 17 ár. Samsett mynd/Grindavíkurbær/mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Kristín María Birgisdóttir missti vinnuna sem markaðs- og upplýsingafulltrúi hjá Grindavíkurbæ í lok apríl ákvað hún að stofna ferðaþjónustufyrirtæki sem hefur það að markmiði að segja sögu hamfaranna í Grindavík. 

Fyrirtækið Discover Grindavík hefur þegar tekið til starfa í bænum. Þar mun hún taka á móti ferðamönnum og segja þeim frá sögu náttúruhamfaranna í Grindavík og ekki síst sögu fólksins í Grindavík og hvaða áhrif hamfarirnar hafa haft á sálarlíf Grindvíkinga. 

„Sem markaðs- og upplýsingafulltrúi er ég búin að vera segja söguna frá því að rýmingin var í bænum. Síðan missi ég vinnuna í lok apríl. Það gengur illa og erfiðlega fyrir sveitarfélag eins og Grindavíkurbæ með litla útfærslu að gera að halda eðlilegri starfsemi gangandi. Ég er ekki að leggja árar í bát heldur trúi því að sókn sé besta vörnin,“ segir Kristín spurð hvað komi til að hún ákveði að opna fyrirtækið á þessum tíma. 

Finnur strax fyrir miklum áhuga

Hún segir að hún finni strax fyrir áhuga frá fólki sem vill hitta einhvern frá Grindavík til að segja sögu bæjarins en Kristín er fædd og uppalin í Grindavík og hefur starfað stóran hluta starfsævi sinnar í bænum. 

„Mér finnst mikilvægt að fólk fái innsýn í það að þetta séu ekki aðeins hamfarir sem eru sjáanlegar á jörðinni heldur hefur líka haft mikil áhrif sálarlíf fólks,“ segir Kristín.

„Það er heilt samfélag þarna á bak við sem þessar náttúruhamfarir höfðu áhrif á. Það er í raun saga að segja frá því,“ segir Kristín. 

„Tækifærið til að heimsækja Grindavík er núna í sumar“

Spurð hvers kyns þjónustu fyrirtækið muni bjóða upp á segir Kristín að áherslan verði á einkaupplifun þar sem boðið verði upp á kynningu um bæinn og sögu hans með leiðsögn í gegnum bæinn. Þá hefur hún einnig boðið upp á kynningu á veitingastöðum bæjarins.  

Aðspurð segir hún að það séu erlendir ferðamenn sem séu hve duglegastir að heimsækja Grindavík. Biðlar hún þó einnig til Íslendinga að gera sér ferð í bæinn í sumar og styðja við þau fyrirtæki sem hafa opnað á ný. 

„Tækifærið til að heimsækja Grindavík er núna í sumar. Það eru fyrirtæki sem eru að koma sér upp á lappirnar og reyna að lifa af,“ segir Kristín 

Discover Grindavík hefur þegar tekið til starfa en opnunarhóf fyrirtækisins fer fram næstkomandi miðvikudag í Kvikunni, menningarhúsi Grindavíkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert