Niðurstaða er væntanleg á næstu dögum í máli Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara, að sögn dómsmálaráðherra.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur nú síðan í desember afþakkað starfskrafta Helga Magnúsar og ekki falið honum nein verkefni til úrlausnar þar sem hún segir hann skorta almennt hæfi til að gegna embætti vararíkissaksóknara.
„Þetta er langt komið til meðferðar,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra á Sprengisandi í morgun. „Þetta er mjög erfitt mál lagalega og það þarf að vanda þar til verka en það styttist mjög í niðurstöðu þessa máls – og það er í dögum talið.“
Helgi hefur því ekki fengið verkefni síðan hann sneri aftur til starfa í desember, í kjölfar þess að þáverandi dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, hafnaði beiðni Sigríðar um að reka Helga vegna ummæla vararíkissaksóknarans á Facebook um innflytjendur frá Mið-Austurlöndum.
Ekki hefur náðst í Þorbjörgu Sigríði dómsmálaráðherra í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir blaðamanna mbl.is.