Glæpasagnahöfundurinn Ragnar Jónasson hefur stofnað fyrirtækið Dimma Pictures í samstarfi við fjölmiðlafyrirtækið Stampede Ventures og framleiðandann John-Paul Sarni.
Hópurinn hefur áður unnið saman að sjónvarpsþáttunum Dimma sem voru sýndir í Sjónvarpi Símans í leikstjórn Lasse Hallström, með Lenu Olin í aðalhlutverki.
Fyrirtækið mun framleiða kvikmyndir og sjónvarpsþætti byggða á bókum Ragnars og bókum annarra höfunda frá Skandinavíu og fleiri Evrópulöndum.
Fyrsta verkefnið verður The Girl Who Died, byggt á bók Ragnars sem nefnist Þorpið og kom út árið 2018. Þar verður í aðalhlutverki Anna Friel, sem er meðal annars þekkt fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Marcela.
Tvö önnur verkefni eru nú þegar á teikniborðinu hjá Dimmu Pictures, eða Reykjavík: A Crime Story, sem er byggð á bókinni Reykjavík sem Ragnar skrifaði með Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, og Snowblind, byggða á annarri bók Ragnars, Snjóblinda. Þar verður Þorvaldur Davíð Kristjánsson í aðalhlutverki.
„Við erum afar spennt fyrir auknu samstarfi við Ragnar. Hann átti stóran þátt í velgengni Dimmu og samstarf hans við leikstjórann, tökuliðið og handritshöfunda var framúrskarandi. Sem rithöfundur hefur hann náð að búa til öflugt vörumerki en núna þegar hann getur víkkað út þá vinnu sem framleiðandi, handritshöfundur og skapari, hlökkum við til að halda áfram samstarfinu við hann,“ segir m.a. í tilkynningu frá Greg Silverman, yfirmanni Stampede Ventures.
Ragnar segist í tilkynningunni elska að segja sögur bæði í bókum og sjónvarpi og er spenntur fyrir samstarfinu við Stampede Ventures og John-Paul Sarni.
„Ég get ekki beðið eftir því að hefja vinnu við okkar fyrstu þáttaröð, The Girl Who Died með hinni ótrúlegu Anna Friel og fleiri spennandi verkefni eru vonandi framundan, bæði úr bókum mínum en einnig úr smiðju sumra af mínum uppáhaldshöfundum,“ segir glæpasagnahöfundurinn knái.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
