Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík, segir umræðuna um leigubílamarkaðinn upp á síðkastið hafa verið einhliða og sorglega.
Miklar umræður hafa skapast um svikastarfsemi og óásættanleg vinnubrögð leigubílstjóra hér á landi en ný lög um leigubifreiðaakstur voru tekin upp í apríl 2023.
Með lögunum var leigubílstjórum keyrt kleift að aka um merkjalausir án aðildar að þjónustustöð.
Sæunn segir að leigubílamarkaðurinn hafi fyrir tveimur árum verið í gríðarlegu ójafnvægi. Það hafi verið erfitt að fá leigubíl og hér hafi ríkt einokun, sem sé aldrei gott fyrir neytendur.
Með nýjum lögum gat Hopp svo farið að bjóða upp á leigubílaakstur. Eftirlitið í kjölfar lagasetningarinnar fór hins vegar úrskeiðis hjá hinu opinbera, að mati Sæunnar.
„Það er bara eitt sem leysir þetta óöryggi varðandi verð og annað, það er tæknin. Það er bara tæknin og eftirlit sem mun gera hér góðan leigubílamarkað,“ segir Sæunn, í samtali við mbl.is.
„Það þarf að ýta meira undir tæknina vegna þess að í tækninni er ekki hægt að svindla. Það getur enginn breytt verðinu í Hopp-appinu.“
Leigubílaþjónustan á vegum Hopp er svipuð því sem þekkist erlendis hjá leigubílaveitum á borð við Uber og Lyft.
„Þegar þú pantar þér bíl í Hopp-appinu, alveg eins og í Uber, ertu með allar upplýsingar hjá þér. Þú ert með bílnúmerið og bílstjórann, þú veist nákvæmlega hvaða leið hann á að fara. Þú veist hvað þú átt að borga fyrir, þú ert búinn að borga fyrir það fyrir fram,“ segir Sæunn.
Þar að auki gefa bílstjórar farþegum sínum einkunnir og sömuleiðis gefa farþegar bílstjórum sínum einkunnir. Einkunnirnar eru síðan teknar saman og er hægt að sjá meðaltal þeirra þegar næst er pantaður bíll.
Þetta kerfi hjálpar til við að koma í veg fyrir svindl og segist Sæunni persónulega finnast hún vera miklu öruggari í leigubíl með þessu fyrirkomulagi en í hefðbundnum leigubíl.