Verklokum frestað til vors 2026

Aðrar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli eru framar í forgangsröðinni en að …
Aðrar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli eru framar í forgangsröðinni en að íslenskan sé fremst á skiltum í flugstöðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Isa­via tilkynnti á degi íslenskunnar, 16. nóvember 2023, að íslenskan kæmi fyrst á öllum leiðbeiningaskiltum á Keflavíkurflugvelli fyrir árslok 2024. Ekki varð af því en áætluð verklok eru nú vorið 2026.

„Þetta verkefni er í fullum gangi. Það hefur tekið lengri tíma en við áætluðum þar sem umfangið er töluvert meira en gert var ráð fyrir. Einnig standa yfir fleiri verkefni við úrbætur á flugvellinum sem eru framar í framkvæmdaröð,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í skriflegu svari við spurningum mbl.is um málið.

Tekur hann fram að verkefnið sé á hönnunarstigi og að prófanir hafi hafist á nýjum merkingum í flugstöðinni síðasta haust.

Næsta haust verði framkvæmdar prófanir á fleiri stöðum.

„Markmiðið er að verkefninu ljúki fyrir vorið 2026,“ skrifar Guðjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert