Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur boðið Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara að taka við endurvöktu embætti vararíkislögreglustjóra. Þetta staðfesta heimildarmenn Morgunblaðsins.
Þetta hefur ráðherra gert í viðleitni sinni til að brjóta upp þá pattstöðu sem myndaðist í kjölfar þess að Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari tók ákvörðun um að halda öllum verkefnum frá Helga Magnúsi og afþakka vinnuframlag hans. Það gerði hún þrátt fyrir þá niðurstöðu Guðrúnar Hafsteinsdóttur þáverandi dómsmálaráðherra að honum skyldi ekki veitt lausn frá störfum, enda þótt ríkissaksóknari hefði gert kröfu þar um.
Kröfu sína byggði ríkissaksóknari á því að Helgi Magnús hefði ekki bætt ráð sitt í kjölfar áminningar sem hann hlaut fyrir ummæli sem hann lét falla á opinberum vettvangi og ríkissaksóknari taldi ekki samræmast hlutverki hans og stöðu.
Ráðherra er heimilt að flytja Helga Magnús til í embætti og er það gert á grunni 20. greinar stjórnarskrár lýðveldisins. Þar er þá heimild að finna en með þeim fyrirvara að neiti embættismaður að samþykkja flutninginn getur hann haldið óskertum launum út skipunartíma sinn. Vararíkissaksóknari er skipaður ævilangt lögum samkvæmt.
Morgunblaðið leitaði upplýsinga um stöðu málsins hjá Jakobi Birgissyni aðstoðarmanni dómsmálaráðherra og Helga Magnúsi og vörðust þeir báðir allra frétta. Heimildir Morgunblaðsins herma hins vegar að ekki sé komin niðurstaða í málið.
Þiggi Helgi Magnús boð ráðherra verður það til þess að embætti vararíkislögreglustjóra, sem ekki hefur verið skipað í frá árinu 2010, verður endurvakið. Embættið er til samkvæmt lögreglulögum en ekki er gert ráð fyrir því í núverandi skipuriti embættis ríkislögreglustjóra.
Kjósi Helgi Magnús að taka ekki við hinu endurreista embætti tryggir það honum full laun fram til sjötíu ára aldurs. Helgi Magnús er 61 árs og myndi þá halda launum án vinnuframlags til næstu níu ára.
Mál vararíkissaksóknara hefur verið á borði Þorbjargar Helgu allt frá því að hún tók við embætti 21. desember síðastliðinn og allan þann tíma hefur Helgi Magnús verið verkefnalaus.
Dómsmálaráðherra er fyrrverandi samstarfs- og undirmaður Sigríðar Friðjónsdóttur og Helga Magnúsar en hún var aðstoðarsaksóknari við embætti ríkissaksóknara 2013-2015 og saksóknari við sömu stofnun 2018-2020, eða allt til þess tíma er hún tók sæti á Alþingi sem þingmaður fyrir Viðreisn.