Vísa átti íbúa út daginn eftir brunann

Sári Morg Gergö liggur enn á spítala að jafna sig …
Sári Morg Gergö liggur enn á spítala að jafna sig eftir brunann. Samsett mynd/Eggert/Eyþór

Sári Morg Gergö, maður sem komst lífs af úr brunanum á Hjarðarhaga í síðustu viku, segir lögreglu hafa tjáð sér að hún hafi fundið bensínbrúsa í brunarústum íbúðarinnar.

Hann átti heima í kjallaraíbúðinni sem kviknaði í ásamt þremur öðrum karlmönnum. Tveir þeirra létust í brunanum en einn var ekki heima þegar eldurinn braust út. 

Sári, sem er frá Ungverjalandi, segist ekki geta fullyrt hver eldsupptökin voru en að gengið hafi á ýmsu áður en bruninn átti sér stað.

Vísa átti einum meðleigjanda hans úr íbúðinni daginn eftir brunann. Viðkomandi lést í eldsvoðanum. Leigusalinn er sagður hafa tjáð íbúanum, sem var frá Bandaríkjunum, í apríl að hann skyldi flytja úr íbúðinni 23. maí. Hann hafði þá búið í íbúðinni í tíu ár.

Sári liggur nú á spítala og jafnar sig af sárum sínum.

Rétt er að vara viðkvæma við myndum í þessari frétt. 

Sári Morg Gergö er með brunasár víða á líkamanum.
Sári Morg Gergö er með brunasár víða á líkamanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Var í fastasvefni 

Sári var sofandi í kjallaraíbúðinni þegar eldurinn braust út. Hann hafði þá búið í íbúðinni í fjögur ár, ásamt vini sínum frá Tékklandi, sem lést í brunanum. Sári tókst að brjóta sér leið út um svefnherbergisgluggann.

„Kvöldið áður hafði ég komið heim eftir vinnu en ég vinn sem leiðsögumaður. Þá eldaði ég mér kvöldmat eins og vanalega en fékk verk í magann þegar leið á nóttina,“ lýsir Sári í samtali við mbl.is.

Hann segir að allir meðleigjendurnir hafi verið heima nóttina fyrir brunann. Auk Sári, Tékkans og Bandaríkjamannsins bjó karlmaður frá Rúmeníu í íbúðinni en sá síðastnefndi var ekki heima þegar bruninn varð.

Sári segist hafa tekið eftir því að Bandaríkjamaðurinn hafi yfirgefið húsið á milli 3 og 4 um nóttina í tæplega klukkutíma, hann viti þó ekki hvert hann fór en hann hafi lokað að sér þegar hann kom heim aftur.

„Ég átti að vinna daginn eftir í hádeginu en gat ekki sofið um nóttina vegna verksins og hringdi mig inn veikan um morguninn og ákvað að stilla ekki vekjaraklukku,“ segir Sári.

Hann hafi þó sofnað upp undir morgun en orðið þess var að íbúinn frá Rúmeníu hafi farið til vinnu um klukkan sex um morguninn. 

Hélt hann væri í draumi

„Ég vaknaði við hitann og sá eldinn læðast undir hurðina og dyrakarminn. Þá vissi ég ekki hvort það sem ég sæi væri í raun og veru að gerast. Ég hafði unnið mikið daginn áður og var úrvinda þegar ég sofnaði loksins eftir að hafa tekið verkjalyf og var í fastasvefni þegar ég vaknaði við lætin,“ segir Gergö.

„Þá opnaði ég dyrnar til að vera viss. En þetta var svo óraunverulegt að ég varð að loka dyrunum og opna þær aftur til að átta mig á því að þetta væri í alvöru að gerast. Ég kýldi meira að segja í logana til að vera viss. Þá fann ég í fyrsta skiptið fyrir eldinum líkamlega og fór að átta mig á aðstæðum.“

Áverkar hans eru slæmir.
Áverkar hans eru slæmir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Klifraði út um brotinn gluggann

„Fyrst vildi ég athuga hvort vinur minn væri í lagi, því ég vissi að hann væri heima. Ég áttaði mig þó á því að ég gæti ekki hlaupið í gegnum eldinn. Þegar ég brá fætinum út fyrir dyrakarminn og ætlaði út úr herberginu, inn til hans, brenndi ég mig á fætinum. Þá fann ég fyrir sársauka og vissi að ef ég færi þá leið myndi ég ekki lifa það af,“ lýsir Sári. 

„Þá snéri ég mér við í átt að glugganum og braut hann með hendinni. Þetta er kjallaraíbúð svo að neðsti hluti gluggans náði mér upp fyrir háls. Ég varð því að klifra út um brotinn gluggann,“ segir hann.

„Ég hlaut ansi djúpa skurði í kjölfarið. Það var um 60-70 cm fall niður á jörðina úr glugganum. Ég fékk skurði á úlnliðinn á mér og það blæddi mikið og líka úr fætinum á mér.“ 

Auk skurða hlaut hann brunasár.

„Þegar ég var síðan kominn út heyrði ég öskur innan úr íbúðinni. Ég var þúsund prósent viss um að það væri vinur minn, sá tékkneski.“

Sári Morg Gergö liggur enn á spítala.
Sári Morg Gergö liggur enn á spítala. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hljóp aftur inn í húsið

„Ég hljóp því að útidyrunum sem voru opnar, aldrei þessu vant, en þegar ég kom að hurðinni að íbúðinni, þá var hún læst. Ég komst ekki inn og jafnvel þó ég kæmist inn þá hefði ég ekki getað gert neitt, því miður,“ segir Sári. Hann segir reykinn sem blasti við honum hafa verið þykkan og dökkan. 

Sári segist því hafa hlaupið á milli íbúða á stigaganginum og bankað á hurðir. Það næsta sem hann hafi vitað var að hann var kominn inn í eina af íbúðunum.

„Þar var inni maður sem varð mjög skelkaður að sjá mig, vegna útgangsins á mér, en ég bað hann að hringja á hjálp fyrir okkur og hann lét mig hafa viskastykki til að loka fyrir sárið,“ segir hann.

„Ég hljóp út í framhaldinu og lögreglan og sjúkraliðar tóku á móti mér. Þá rann adrenalínið af mér og ég fór almennilega að finna fyrir áverkunum,“ segir Sári.

Hann segist þá hafa sagt lögreglunni frá því að það væru tveir til viðbótar inni í íbúðinni en viðbragðsaðilar hafi ekki komist að þeim strax enda mikill eldur í íbúðinni.

Sári fór í kjölfarið á spítala, þar sem hann liggur enn. 

Átti að vísa íbúanum út degi eftir brunann

Sári segir leigusala sína vera „ótrúlega gott og áreiðanlegt fólk“. Hann hafi þurft að leita til þeirra vegna samskiptaörðugleika á milli hans og íbúans bandaríska sem átti að vísa út.

Það hafi ekki verið í fyrsta skiptið en í desember hafi leigusalarnir sagt að hann gæti ekki búið þar lengur. 

Sári segist þó hafa náð að greina úr ágreiningnum á milli hans og mannsins, svo að ekki hafi komið til þess að hann færi út. Slæm umgengni og óþrifnaður íbúans haft áhrif á sambúðina. 

Hann segir íbúann bandaríska alls ekki hafa viljað yfirgefa heimili sitt og að hann hafi verið ósáttur við þær málalyktir.

Hann hafði þar átt heima í tíu ár en tjáð í apríl að hann yrði að yfirgefa íbúðina þann 23. maí, degi eftir að bruninn átti sér stað.

„Hann átti við miklar skapsveiflur að etja. Ég hugsa að hann hafi verið þunglyndur, þó ég sé ekki sérfræðingur í þeim málum,“ segir Sári. Hann segir þá hafa rifist um það leyti sem honum hafi verið sagt að hann yrði að fara út í apríl. Þeir hafi ekki talað saman síðan þá.

„Hann átti betra skilið,“ segir Sári á spítalanum um tékkneska vin sinn. „Hann var alltaf til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á honum að halda. Hann var bestur,“ segir hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert