Íhuga að verja 1,5% landsframleiðslu í varnarmál

„Við erum að horfa til eina og hálfa prósentsins,“ sagði …
„Við erum að horfa til eina og hálfa prósentsins,“ sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, en hún og Mark Rutte, framkvæmdastjóri Nató, áttu fund um varnarmál í dag. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra segir að stjórnvöld séu að horfa til þess að verja 1,5 prósent af vergri landsframleiðslu í „varnartengd“ útgjöld, eins og forysta NATÓ hefur óskað eftir af aðildarríkjum. Miðað við landsframleiðslu í fyrra næmi upphæðin 70 milljörðum króna á ári.

Íslend­ing­ar verja nú um 0,14 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu beint til varn­ar­mála, samkvæmt upplýsingum frá því í apríl.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra átti í dag tvíhliða fund með Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins (NATÓ), í höfuðstöðvum þess í Brussel í Belgíu.

Þar voru varnar- og öryggismál til umræðu en fundurinn er ákveðin upphitun fyrir leiðtogaþing NATÓ, sem verður haldið 24. til 26. júní. 

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Mark Rutte, framkvæmdastjóri Nató, áttu fund …
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Mark Rutte, framkvæmdastjóri Nató, áttu fund um varnarmál í dag. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

Öll ríki nema Ísland muni greiða 5%

Mark Rutte hyggst fara fram á breytingar á komandi leiðtogafundi um að hækka lágmarksútgjöld aðildarríkja til varnarmála úr 2% í 3,5%, en Ísland hef­ur verið und­an­skilið mark­miðinu sök­um her­leys­is og smæðar lands­ins.

En Rutte vill einnig að aðildarríki verji 1,5% af vergri landsframleiðslu í „varnartengda“ málaflokka, t.a.m. netvarnir og aðra innviði, á næstu sjö árum. Óljóst er hvað myndi nákvæmlega falla undir þann málaflokk og hvort Ísland yrði undanskilið því en Kristrún virtist taka vel í þessar hugmyndir Rutte.

„Við viljum svara kallinu, það er vilji innan ríkisstjórnarinnar að gera það. Við erum að horfa til eina og hálfa prósentsins,“ sagði Kristrún. „En við erum einnig að sjá fé fara í bein varnamálaútgjöld og það mun aukast.“

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu getur ýmislegt sem stjórnvöld eru þegar að gera fallið undir þessi 1,5%.

Verg landsframleiðsla var í fyrra 4.616 milljarðar króna, samkvæmt Hagstofunni, og 1,5% af því er tæplega 70 milljarðar.

Af fundinum í morgun með Rutte og Kristrúnu.
Af fundinum í morgun með Rutte og Kristrúnu. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

Rutte sagðist hafa fengið skýr skilaboð frá Kristrúnu um að Íslendingar vildu auka útgjöld vegna varnarmála.

Kristrún tók þó fram að engin eðlisbreyting yrði á því hvernig fjármagni sé varið í varnarmál. Heldur vildi hún frekar „styrkja það sem við erum þegar góð í, sem er varnatengd fjárfestingar og útgjöld“.

Í Facebook-færslu að loknum fundi skrifaði Kristrún enn fremur að hún vildi að Ísland tæki virkan þátt í forystu NATÓ og vildi „auka viðbúnað og fjárfestingu í varnartengdum innviðum á næstu árum – sem geta einnig nýst í borgaralegum tilgangi“.  Kristrún hafi fundið fyrir „fullum skilningi á stöðu og framlagi Íslands“ til NATÓ.

„Ríkisstjórnin er algjörlega einhuga um þetta. Sem birtist bæði í nýrri öryggis- og varnarmálastefnu sem unnið er að undir forystu utanríkisráðherra og í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2030.“

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá forsætisráðuneytinu um að margt sem stjórnvöld eru þegar að gera falli gætu fallið undir umrædd 1,5%.

Kristrún og Rutte ræddu saman í morgun.
Kristrún og Rutte ræddu saman í morgun. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið
Fundurinn var ákveðin upphitun fyrir leiðtogaþing Nató í júní.
Fundurinn var ákveðin upphitun fyrir leiðtogaþing Nató í júní. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert