Rannsókn lögreglu á eldsvoðanum á Hjarðarhaga í síðustu viku þar sem tveir karlmenn létust er í fullum gangi. Meðal þess sem er verið að rannsaka er hvort íkveikja hafi valdið eldsvoðanum.
„Við teljum okkur hafa þokkalega skýra mynd af því sem þarna átti sér stað og nú er mikil rannsóknarvinna í gangi sem er aðallega fólgin í gagnaöflun og skýrslutökum,“ segir Eiríkur Valberg, fulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Mennirnir sem létust í eldsvoðanum voru Bandaríkjamaður á sextugsaldri annars vegar og Tékki á fertugsaldri hins vegar.
Fjórir menn bjuggu í kjallaraíbúðinni við Hjarðarhaga þar sem eldurinn kom upp. Þrír þeirra voru í íbúðinni og létust tveir þeirra en sá þriðji, Ungverjinn Sári Morg Gergö, sem komst lífs af úr eldsvoðanum liggur á spítala og er að jafna sig af sárum sínum.
Sári sagði í viðtali við mbl.is í gær að lögreglan hefði tjáð sér að hún hefði fundið bensínbrúsa í brunarústum íbúðarinnar.
Er það rétt að fundist hafi bensínbrúsar í íbúðinni?
„Ég get ekki staðfest það,“ segir Eiríkur, sem segist ekki geta tjáð sig um það á þessari stundu hvort grunur leiki á að um íkveikju hafi verið að ræða.
Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins eða er með stöðu sakbornings að sögn Eiríks.