Brengluð verðmyndun síðustu ár

Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur greiningar Íslandsbanka, segir verðmyndun á fasteignamarkaði hafa …
Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur greiningar Íslandsbanka, segir verðmyndun á fasteignamarkaði hafa verið aðeins brenglaða síðustu ár þegar hækkanir hafi verið með því móti sem þær hafa verið. Samsett mynd/Aðsend/mbl.is/Eggert

Hækkun fasteignamats fyrir árið 2026 upp á rúm 9% er í takti við væntingar. Þetta segir Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur greiningar Íslandsbanka og sérfræðingur um fasteignamarkaðinn.

„Fasteignamat 2026 miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2025 og tekur gildi 31. desember sama ár þannig að fasteignamat er að elta markaðsverð en ekki öfugt svo þetta kemur ekkert á óvart.“

Fast­eigna­mat hækk­ar mest á Suður­nesj­um og á Norður­landi og segir Bergþóra Grindavíkuráhrifin ekki koma á óvart og þ.a.l. meiri hækkun fasteignamats á Suðurnesjum en annars staðar á landinu.

Gerir ráð fyrir 6% hækkun í ár

Hvað verðmyndun á fasteignamarkaði varðar segir Bergþóra hana hafa verið aðeins brenglaða síðustu ár þegar hækkanir á markaðnum hafa verið með því móti sem þær hafa verið.

„Fasteignamatið er bara að elta skottið á markaðsverðinu. Við erum á því tímabili sem þetta er pínu skrítið en það mun kannski lagast þegar við sjáum minni hækkanir eins og við reyndar gerum ráð fyrir,“ segir Bergþóra en greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir 6% hækkun fasteignaverðs að nafnvirði í ár.

Hefur í för með sér aukna skattbyrði

Bergþóra segir ekki endilega jákvætt að fasteignamat hækki því það hafi oft í för með sér aukna skattbyrði fyrir fólk en bætir þó við að hærra fasteignamat hjálpi við fjármögnun. Því skilji hún að margir séu ánægðir að sjá fasteignamat hækka eins og raun ber vitni.

Nýbyggingar eru nær fasteignamati að markaðsvirði heldur en eldri eignir að sögn Bergþóru, sem hún segir grundvallast af því að annars vegar sé vinsælt í dag að kaupa eldri eignir og gera upp og hins vegar að fasteignamat sé hærra á nýjum eignum.

Eftirspurn að dempast

Talið berst að eftirspurn á markaðnum, sem Bergþóra segir að sé aðeins að dempast, þó alltaf sé náttúruleg þörf fyrir nýbyggingar. Minnist hún sérstaklega á fólksflutninga til landsins því einhvers staðar þurfi innflutt vinnuafl að búa.

Fólksflutningar eru nú hægari til landsins að hennar sögn og segir hún það einnig dempa eftirspurn að einhverju leyti.

„Í þessu háa vaxtastigi er tiltölulega rólegt um að litast og mögulega eitthvað jafnvægi ef einhvern tímann er hægt að tala um jafnvægi á þessum markaði.

Um leið og vextir lækka mun eftirspurn aukast á ný og svo enn frekar þegar þessi lánþegaskilyrði verði rýmkuð, sem ég held þó að sé ekki útlit fyrir í bráð, miðað við hvernig seðlabankinn talar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert