Tónlistarkonan Bríet Ísis Elfar hlýtur Langspilið, verðlaun STEFs, í ár en það var afhent í 11. sinn rétt í þessu við hátíðlega athöfn.
Langspilið var fyrst afhent árið 2015 en það hlýtur höfundur sem að mati stjórnar er talinn hafa skarað fram úr og náð eftirtektarverðum árangri á nýliðnu ári. Er þetta hugsað sem klapp á bakið og hvatning til frekari dáða.
„Það að fá viðurkenningar er svo furðuleg tilfinning því oft er eins og maður sé að gera bara eitthvað út í loftið en svo kemur einhver svona staðfesting á því að verið sé að hlusta á og fagna því sem maður er að gera og þá kemur ákveðinn vindur í seglin til að halda áfram,“ segir Bríet í samtali við blaðamann.
„Því á sama tíma og maður fær verðlaunin þá fattar maður að sköpunin snýst alls ekki um að fá verðlaun en þau fá mann hins vegar til að taka næstu skref, brosa og þakka fyrir sig.“
Í umsögn dómnefndar í ár segir meðal annars að á undanförnum árum hafi Bríet klifrað hægt og bítandi upp spilunarlista útvarpsstöðva og á netinu sem hafi eðlilega endurspeglast í auknum úthlutunum frá STEFi og hafi síðasta ár verið metár hvað hana varði:
„Bríet vinnur nú að nýrri tónlist og frumflutti á dögunum nýtt lag, sungið á ensku. Vonandi heldur hún sigurför sinni áfram og allra helst víðar en hérlendis. Óskum við henni velfarnaðar með nýju lögin og það sem framundan er. Vonandi verða þessi verðlaun góð hvatning til frekari afreka og jafnvel landvinninga.“
Fyrri verðlaunahafar eru Ólafur Arnalds, Ásgeir Trausti Einarsson, Barði Jóhannesson, Hildur Guðnadóttir, Júníus Meyvant, Anna Þorvaldsdóttir, Daði Freyr Pétursson, Margrét Rán Magnúsdóttir, Pálmi Ragnar Ásgeirsson og Friðrik Karlsson sem hlaut Langspilið í fyrra.
Sem fyrr er það hagleiksmaðurinn Jón Sigurðsson á Þingeyri sem sérsmíðar verðlaunagripinn.
Ítarlegt viðtal við Bríeti birtist á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, laugardaginn 31. maí.