Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segir ógagnsæi hafa ríkt um úthlutun strandveiða undanfarin ár. Nýtt frumvarp ráðherrans um strandveiði muni tryggja gagnsæi sem og sjálfbærni. Þá bindur hún vonir við að stjórnarandstaðan hafi það ekki að markmiði að tefja framgang frumvarpsins.
Greint hefur verið frá því að ráðherrann vilji víkja frá skyldum Fiskistofu um að stöðva strandveiðar þegar leyfilegum heildarafla hefur verið náð svo að hægt verði að tryggja 48 daga strandveiðitímabil í sumar.
Yrði henni einnig heimilt að ráðstafa auknu aflamagni til strandveiða við núverandi aflamagn á fiskveiðiárinu en viðbótaraflamagn myndi dragast frá því magni sem dregið yrði frá heildaraflamarki og ætti að fullu að vera fært til baka eigi síðar en á fiskveiðiárinu 2028/ 2029.
Núverandi ráðstöfun aflamagns þorsks til strandveiða er 10.000 tonn óslæg.
Í samtali við mbl.is segir Hanna Katrín það hafa staðið lengi til að tryggja 48 daga strandveiðar, sem sé jafnframt í lögum þó að veiðin hafi verið stoppuð þegar náðst hefur verið upp í heimild aflamagnsins.
„Það hefur ríkt mjög mikið ógagnsæi um úthlutun undanfarinna ára. Bæði hafa fyrri ráðherrar bætt í strandveiðarnar á kannski ótraustum lagalegum grunni og líka kannski án þess að gera ráðstafanir til þess að tryggja sjálfbærni. Þetta frumvarp er ætlað til að tryggja hvoru tveggja; að ég hafi lagaheimild til þess að bregðast við ef til þess kemur að það þurfi að bæta í strandveiðiheimildirnar, þ.e. að ég hafi lagaheimild til þess, og það að það sé lögbundið að ég skili því sem ég tek umfram til baka á næstu þremur árum til þess að tryggja sjálfbærnina,“ segir ráðherrann.
Hún nefnir að um ákveðna nýjung sé að ræða en bendir þó jafnframt á að árið 2021 hafi 8.000 tonn af ýsukvóta verið fengin að láni sem borgað var til baka árið eftir.
„Þannig að það sem er verið að leggja til hér á sér fordæmi en ég er bara að ganga skrefinu lengra og festa það í lögum, eða mæla til þess að þingið festi það í lögum.“
Þá segir Hanna Katrín að með frumvarpinu sé einnig verið að festa ákveðnar heimildir Fiskistofu til þess að bregðast hraðar við en stofan hefur getað gert hingað til, þá sérstaklega hvað varðar að bregðast við brotum og geta þannig svipt leyfum ef þörf er á.
„Þannig að bæði er verið að auka sveigjanleika en líka verið að festa enn frekar í sessi girðingar.“
Spurð um möguleg áhrif á næstu ár er kemur að strandveiðum segir Hanna Katrín reynslu þessa sumars verða nýtta í endurskoðun á fyrirkomulagi strandveiða til framtíðar þar sem lögð verði áhersla á byggðarfestu og samfélög landsbyggðarinnar.
„Og það getur vel verið, eins og þú segir, að það þurfi einhverjar viðbótarráðstafanir, aðrar en bara að herða girðingar, til þess að tryggja að ég geti greitt þetta til baka, en við erum með ýmis spil á hendi þar og það er margt sem verið er að skoða í samvinnu við aðila en það bara náðist ekki núna vegna þess hvernig málum var komið,“ segir ráðherrann og vísar til þess að ríkisstjórnin tók við völdum er fiskveiðiárið var hálfnað.
„Þetta er fyrsta skrefið en síðan komum við með heildstæðara frumvarp á haustmánuðum þar sem markmiðið er að tryggja þessa 48 daga til frambúðar.“
Það hefur ýmis gagnrýni vaknað upp varðandi frumvarpið. Annars vegar að stjórnvöld hafi ekki stutt sig við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og hins vegar tímasetning framlagningar frumvarpsins, en núna er stutt í að þingmenn fari í sumarfrí, 13. júní. Áttu von á því að það náist að afgreiða frumvarpið fyrir þann tíma?
„Varðandi ráðgjöf Hafró; það hefur mjög oft verið farið umfram ráðgjöf án þess að menn hafi endilega búið svo um hnútana að ráðherra þurfi að greiða til baka og það er ég að gera núna, og bara sem dæmi, og það kemur fram í greinargerð sem fylgdi með frumvarpinu að frá árinu 2019 til fiskveiðiársins 2024 hefur samanlagður þorsksafli verið umfram ráðgjöf Hafró um rúmlega 50.000 tonn þannig það er alls ekki rétt að það hafi aldrei verið farið umfram ráðgjöf Hafró.
Það sem er sennilega nýmæli í þessu er að þetta er sett svona skýrt fram í lögum, en það er ég nákvæmlega að gera til þess að tryggja að skylda mín að greiða þetta til baka sé fest í lögum. Ég hefði getað gert þetta í einhvers konar tómarúmi en mér hugnaðist það ekki, þannig að þetta er gert svona og það er líka bara ráðgjöf minna góðu sérfræðinga hér í ráðuneytinu að ég hafi þetta uppi á borðum og setji pressu á mig,“ segir ráðherrann og heldur áfram.
„Síðan er það auðvitað hitt, að Hafró er auðvitað sjálfstæð vísinda- og rannsóknarstofnun með sitt skilgreinda hlutverk og það er mjög eðlilegt að hún hafi skoðun á því þegar vikið er frá henni. Ég veit að hún kom fram í dag með gagnrýni og það hefur hún gert áður þegar það hefur verið vikið frá ráðgjöf og það er býsna oft gert, eins og ég hef komið inn á, t.d. eins og ég nefndi áðan með ýsuna og þegar síðasti ráðherra kom með umframafla í karfa þvert á ráðgjöf Hafró.
Þetta er algengt og það er kannski vegna þess að ráðherrar hafa þessa heimild til þess að víkja frá ráðgjöf Hafró vegna þess að þeim ber að taka tillit til samfélagslegra og efnahagslegra þátta líka.“
Segir Hanna Katrín aðhald Hafrannsóknastofnunar vera gríðarlega mikilvægt og að mark sé tekið á þeim röddum sem þaðan berast. Hún telji hins vegar frumvarpið og það frávik sem þar yrði heimilað ekki hafa þau áhrif að það grafi undan sjálfbærni þorskstofnsins eins og bent hafði verið á sem mögulegt áhyggjuefni.
„Annars vegar vegna þess að þetta er ekki mikið og hins vegar vegna þess að þetta er bara ætlað í eitt ár og það verður komið til móts við það og borgað til baka næstu þrjú ár.“
„Hins vegar, að þetta sé seint fram komið, það er bara alveg rétt. Við erum að hlaupa hratt með tiltölulega stuttan tíma. Hér urðu kosningar á óhefðbundnum tíma sem gerir það að verkum að þingveturinn er stuttur. Það liggur eiginlega í hlutarins eðli að hefðbundin þinglok verða ekki eftir tvær vikur eins og starfsáætlun þingsins gerir ráð fyrir, við munum fara lengra. Þannig að það er nægur tími fyrir þetta mál.
En ég bind líka vonir við að í ljósi þess að þetta mál er mikilvægt og það er lítið og einfalt, að þetta verði ekki eitt af þeim málum sem stjórnarandstaðan mun leggja sig í líma við að tefja,“ segir ráðherrann og bætir við að lokum:
„Hin pólitísku ágreiningsmál eru nú sennilega mýmörg en ég er nú ekki sannfærð um að menn græði á því að gera það að pólitísku ágreiningsmáli að ég vilji gera þessa hluti rétt.“