Seltjarnarnes og Garðabær lækka álagningu

Seltjarnarnes og Garðabær lækka álagningarhlufall á móti fasteignamatshækkunum.
Seltjarnarnes og Garðabær lækka álagningarhlufall á móti fasteignamatshækkunum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, gerir fastlega ráð fyrir því að lækka álagninu á móti hækkandi fasteignamati sem birt var af HMS á dögunum. 

„Þetta er mjög ósanngjörn skattlagning á íbúa. Við höfum ekki enn náð að setjast yfir þetta en ég geri fastlega ráð fyrir því að við mætum þessu með einhverju móti,“ segir Þór aðspurður. 

Fasteignamat íbúðareigna á Seltjarnarnesi hækkar nú um 12,6% samkvæmt nýbirtum tölum frá HMS.

Ekki hentugt eða gagnsætt fyrir íbúa

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, hyggst gera slíkt hið sama. „Ég get alveg lýst því yfir að við ætlum, eins og undanfarin ár, að lækka álagningarhlutfallið á móti þessari miklu fasteignamatshækkun.“

Samkvæmt tölum HMS hækkar fasteignamat íbúðareigna í Garðabæ um 10,7%.

Einnig segir hann það aðkallandi að málefni fasteignamats verði endurskoðuð í heild sinni. „Þetta er ekki fyrirkomulag sem er hentugt eða gagnsætt fyrir íbúana.“

Þór Sigurgeirsson og Almar Guðmundsson segjast ætla að lækka álagningu …
Þór Sigurgeirsson og Almar Guðmundsson segjast ætla að lækka álagningu í sínu sveitarfélagi. Samsett mynd

Skoðað á Akureyri og í Hafnarfirði

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, segir óákveðið hvort álagning verði lækkuð á móti hækkandi fasteignamati. „Við erum bara að skoða hvað við getum gert,“ segir hún aðspurð.

Fasteignamat íbúðareigna hækkar um 10,6% á Akureyri. Einnig er mikil hækkun á fasteignamati sumarhúsa þar í bæ en hún nemur 22,9%.

Í Hafnarfirði hækkar fasteignamat íbúðareigna um 9,7%.  Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir meirihlutann eiga eftir að funda til að ræða málin. 

Kópavogsbær lækkar álagningu

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, sagði á fundi HMS þar sem fasteignamat fyrir 2026 var kynnt að hún hyggst lækka álagningu á móti hækkandi fasteignamati. Kópavogsbær hefur verið leiðandi í slíkum aðgerðum undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert