Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, gerir fastlega ráð fyrir því að lækka álagninu á móti hækkandi fasteignamati sem birt var af HMS á dögunum.
„Þetta er mjög ósanngjörn skattlagning á íbúa. Við höfum ekki enn náð að setjast yfir þetta en ég geri fastlega ráð fyrir því að við mætum þessu með einhverju móti,“ segir Þór aðspurður.
Fasteignamat íbúðareigna á Seltjarnarnesi hækkar nú um 12,6% samkvæmt nýbirtum tölum frá HMS.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, hyggst gera slíkt hið sama. „Ég get alveg lýst því yfir að við ætlum, eins og undanfarin ár, að lækka álagningarhlutfallið á móti þessari miklu fasteignamatshækkun.“
Samkvæmt tölum HMS hækkar fasteignamat íbúðareigna í Garðabæ um 10,7%.
Einnig segir hann það aðkallandi að málefni fasteignamats verði endurskoðuð í heild sinni. „Þetta er ekki fyrirkomulag sem er hentugt eða gagnsætt fyrir íbúana.“
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, segir óákveðið hvort álagning verði lækkuð á móti hækkandi fasteignamati. „Við erum bara að skoða hvað við getum gert,“ segir hún aðspurð.
Fasteignamat íbúðareigna hækkar um 10,6% á Akureyri. Einnig er mikil hækkun á fasteignamati sumarhúsa þar í bæ en hún nemur 22,9%.
Í Hafnarfirði hækkar fasteignamat íbúðareigna um 9,7%. Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir meirihlutann eiga eftir að funda til að ræða málin.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, sagði á fundi HMS þar sem fasteignamat fyrir 2026 var kynnt að hún hyggst lækka álagningu á móti hækkandi fasteignamati. Kópavogsbær hefur verið leiðandi í slíkum aðgerðum undanfarin ár.