Landsvirkjun hefur undanfarin misseri undirbúið stækkun Þeistareykjavirkjunar norðan Mývatns.
Einnig er til skoðunar verkefni sem gengur út á að bæta nýtni háþrýstrar gufu til orkuvinnslu.
Þetta er m.a. talið mögulegt vegna þess að gufuþrýstingur á svæðunum hefur reynst umtalsvert meiri en upphaflega var reiknað með.
Fyrstu áætlanir Landsvirkjunar gerðu ráð fyrir að stækkun á Þeistareykjum yrði lokið árið 2028. Nú er þegar ljóst að svo verður ekki, enda liggja virkjunar- og nýtingarleyfi ekki enn fyrir. Umsóknir um virkjunar- og nýtingarleyfi er nú í vinnslu hjá Umhverfis- og orkustofnun, segir Ragnhildur Sverrisdóttir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.
Þegar leyfin liggja fyrir er stefnt að því að taka fyrstu skrefin í stækkunaráformum.
„Áform okkar um framkvæmdir sæta sífelldu endurmati og það gildir líka um frekari stækkun Þeistareykjastöðvar, enda leggjum við alltaf kapp á að tryggja sem mesta hagkvæmni í rekstri. Staða þessa verkefnis mun því skýrast betur þegar líður á árið,“ segir Ragnhildur.
Þeistareykjastöð var fyrsta jarðvarmavirkjunin sem Landsvirkjun reisti frá grunni. Hún var gangsett 17. nóvember árið 2017, þegar fyrri 45 megavatta vélasamstæðan var ræst.
Jónas Ketilsson, yfirverkefnisstjóri stækkunar Þeistareykjastöðvar, segir að nú séu í rekstri tvær vélasamstæður, hvor um sig með ástimpluð 45 MW í rafafli.
Umsókn Landsvirkjunar nú gerir ráð fyrir að bæta við þriðju vélasamstæðunni, 45 MW.
Umhverfismat gerir ráð fyrir allt að fjórum vélasamstæðum auk toppvélar, í heildina allt að 209,9 MW.
Jónas segir að hið kvika eðli jarðhitans geri það að verkum að best fari á að læra vel inn á hvert jarðhitakerfi fyrir sig með víðtækum rannsóknum og öflugu auðlindaeftirliti til að auka skilning á eðli jarðhitaauðlindarinnar.
Ástimplað rafafl er áætlað út frá gefnum forsendum um þrýsting og hita og því kann að vera að hægt sé að nýta orkuna enn betur en ástimplað afl gefur til kynna. Því sótti Landsvirkjun um 180 MW í rafafli fyrir þrjár vélasamstæður, auk toppvélar.
Nú er beðið eftir útgáfu nýtingar- og virkjunarleyfa. Enn sem komið er hefur vélbúnaður til aukinnar raforkuvinnslu ekki verið pantaður, enda liggja leyfi ekki fyrir enn sem komið er.
En hvernig er hægt að bæta nýtni háþrýstrar gufu til orkuvinnslu?
„Líkja mætti þessu við að fleyta rjómann ofan af mjólkinni,“ segir Jónas til útskýringar.
„Upphaflegar forsendur okkar gerðu ekki ráð fyrir rjómaskáninni sem getur gefið okkur allt þetta auka rafafl. Forsendur Þeistareykjastöðvar gerðu ráð fyrir lægra orkuinnihaldi á massa. Við rekstur stöðvarinnar og borun nýrra holna hefur jarðhitaauðlindin komið skemmtilega á óvart og þrýstingur reynst umtalsvert hærri en reiknað var með. Viðbrögð jarðhitakerfisins við vinnslu hafa auk þess verið minni en spár gerðu ráð fyrir. Með því að veita háþrýstri gufu fyrst inn á svokallaða toppvél tekst okkur að fleyta rjómann af mjólkinni áður en gufunni er skilað inn í núverandi Þeistareykjastöð.“
Jónas segir að þetta framfaraskref sé því í takt við stefnumörkun stjórnvalda um bætta orkunýtni og skili Landsvirkjun meiri ávinningi án þess að auka upptekt úr auðlindinni, með sjálfbæra nýtingu og ábyrga auðlindastjórnun að leiðarljósi.
Svonefnd toppvél muni geta gefið um 25 MW í rafafli ef væntingar Landsvirkjunar ganga eftir.