Sextán ára drengur, sem fór í gegnum tólf vikna meðferð á meðferðarheimilinu Blönduhlíð á Vogi, var útskrifaður þaðan á dögunum, þó það hafi þurft að beita hjartahnoði á hann í lögreglubíl helgina áður vegna ofdrykkju. Hann hafði þá dottið í það í helgarleyfi líkt og hann gerði nánast í öllum leyfum á meðan hann var í meðferðinni, að sögn móður hans.
Þar sem ekkert langtímameðferðarúrræði er til staðar fyrir drengi er nú ekkert sem tekur við hjá drengnum hvað meðferð varðar. Fyrir utan neyðarvistun Stuðla, þegar hann verður stjórnlaus af drykkju. En það er einungis skammtímalausn til að stoppa hann af. Er hann því á svipuðum stað og áður en hann fór í meðferð og hætt við því að vandi hans aukist enn frekar.
Það eina sem foreldar hans geta nú gert í stöðunni er að reyna að koma honum í langtímameðferðarúrræði í útlöndum, sem er mjög kostnaðarsamt.
„Það var alltaf verið að segja við mig að við ættum að læra af þessu og reyna að finna ástæðu þess af hverju hann væri að detta í það. Hann ætti að skoða þetta. Eitthvað sem 16 ára strákur er ekki að fara að gera,“ segir móðirin í samtali við mbl.is.
Vissulega náðist einhver árangur á þessum tólf vikum. Nú er hann til að mynda eingöngu að misnota áfengi og reykja gras, áður tók hann allt sem hann komst í. Það er þó ljóst að hann glímir við alvarlegan fíknivanda og þarf meiri aðstoð til lengri tíma.
Sjálfur hefur drengurinn löngun til að hætta en ræður ekki við það og þegar hann dettur í það er drykkjan stjórnlaus. „Hann drekkur þangað til líkaminn slekkur á sér,“ segir móðir hans.
Þá verður hann aggresífur þegar hann er undir áhrifum og er hættulegur sjálfum sér og öðrum. Hann hefur nú þegar brotið af sér gegn öðrum og er á skilorði.
Áður en drengurinn komst loks í meðferð í Blönduhlíð á Vogi í febrúar síðastliðnum, eftir langa bið, hafði hann tvisvar fundist á víðavangi nær dauða en lífi vegna ofdrykkju og lent öndunarstoppi eftir að hafa tekið falsaðar xanax-kvíðatöflur. Þá var hann sprautaður niður og vistaður á geðgjörgæsludeild Landspítalans.
Meðferðarúrræðið á Vogi reyndist hins vegar ekki jafn gagnlegt og þau höfðu vonað, enda mikið um strok og helgarleyfi þar sem auðvelt er fyrir börnin að komast í áfengi og fíkniefni.
„Helgina áður en hann útskrifaðist, þegar Samfés var, þá datt hann í það og var hjartahnoðaður í löggubílnum. Þá var það veikur púls eða enginn,“ segir móðirin í samtali við mbl.is. Hann var í kjölfarið fluttur meðvitundarlaus á spítala og var svo í eftirliti þar.
Þegar drengurinn kom aftur í Blönduhlíð kom í ljós að til stóð að útskrifa hann.
„Okkur var sagt að hann passaði ekki þarna inn, að hann væri kominn lengra en krakkarnir sem væru þarna og það að gæti haft neikvæð áhrif á hann að vera þarna inni. Okkur var talin trú um það.“
Hún segir að þegar hún horfi til baka þá sé lítið vit í þessu.
Þegar hann var útskrifaður fékk hún að heyra að foreldrar væru ekki endilega að senda börnin á neyðarvistun þó þau kæmu undir áhrifum heim. Fyrstu viðbrögð móðurinnar voru þau að hálf skammast sín fyrir að hafa gert það en þegar hún náði melta upplýsingarnar fylltist hún reiði.
„Hann er ekkert venjulegt 16 ára barn. Þetta er ekkert venjulegt. Það er vandamál þarna. Hann hefur tvisvar fundist meðvitundarlaus úti, einu sinni að vetri til og einu sinni að sumri til. Hann hefur farið í hættulegt geðrof og öndunarstopp, þrisvar. Og var svo hjartahnoðaður í löggubílnum. Það skal enginn segja mér að þetta sé eðlileg þróun eða eðlileg drykkja.“
Hún upplifði að starfsfólki meðferðarheimilisins þætti hún gera of mikið úr hlutunum og að hún væri að nýta sér úrræði sem sonur hennar ætti ekki rétt á.
„Þetta hljómaði eins og ég væri að nota neyðarvistun bara af því hann væri að detta í það eða hlýddi ekki.“
Síðasta sumar bundu foreldrarnir vonir við að drengurinn kæmist í langtímameðferð á Lækjarbakka, en þá var gert ráð fyrir að opnað yrði aftur strax um haustið. Sem varð ekki raunin.
Líkt og mbl.is hefur greint frá var meðferðarheimilinu Lækjarbakka lokað vegna myglu í apríl á síðasta ári, en þar var tekið á móti drengjum í langtímameðferð. Til stendur að opna úrræðið á nýjum stað í Gunnarsholti á Rangárvöllum en það verður í fyrsta lagi í lok september eða í október.
Foreldrarnir vilja nefnilega helst koma syni sínum úr bænum, úr umhverfinu sem hann er í; frá vinunum og freistingum sem eru allt í kring.
„Ég hef það á tilfinningunni að það besta fyrir hann sé að komast út úr aðstæðunum,“ segir móðir hans.
Þau eru því komin á þann stað að vilja láta reyna á meðferð í útlöndum og hafa verið í samskiptum við meðferðarstofnun í Suður-Afríku, þar sem íslensk börn hafa farið í meðferð. En fyrst þurfa þau að sannfæra drenginn um að vilja fara, því gott samstarf við hann er mikilvægt.
Þau hafa einnig skoðað meðferðarstofnun á Spáni, en töluverður munur er á kostnaði. Fyrir meðferð í Suður-Afríku þyrftu þau að greiða um 300 þúsund krónur á mánuði en á Spáni um 1,2 milljónir á mánuði. Þau gera ekki ráð fyrir að fá það neitt niðurgreitt, þó engin langtímameðferð sé í boði hér á landi.
„Við erum bara búin að gefast upp á úrræðunum hér sem eru engin. Kornið sem fyllti mælinn var svo þegar Guðmundur [Ingi Kristinsson] barnamálaráðherra sagði í viðtali að við værum í góðum málum. Ég spyr mig hvernig sé hægt að segja þetta þegar það eru ekki einu sinni til úrræði fyrir stráka á landinu og Blönduhlíð hefur ekki verið að virka.“
Vísar hún þar í viðtal við mennta- og barnamálaráðherra sem birtist á mbl.is í síðustu viku. Þá sagði ráðherra að við værum í góðum málum varðandi meðferðarúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda. Hann sagði einnig að við værum í ágætis stöðu og að aðstaðan í Blönduhlíð væri mjög góð.
Móðirin segir að neysla hafi verið í gangi í Blönduhlíð á meðan sonur hennar var þar og hún bendir á að einnig sé neysla á Stuðlum. Faðir 15 ára drengs sem vistaður var þar í nokkra mánuði, hafði einmitt sömu sögu að segja. Að allt væri vaðandi í grasi á Stuðlum, eins og hann orðaði það.
„Þegar maður spáir í neyslunni á þessum stöðum þá er það auðvitað þannig að það er endalaus útivist fyrir krakkana og báðir staðirnir eru í bænum. Það er kannski verið að skilja eftir fyrir utan gluggann eða úti í garði. Þannig það er ekkert skrýtið að það sé allt vaðandi í eiturlyfjum þarna inni.“
Rúmt ár er síðan foreldrarnir gerðu sér grein fyrir að drengurinn var fikta við áfengi og gras, en hann var í kjölfarið rekinn úr einkareknum grunnskóla þar sem hann stundaði nám. Eftir það ágerðist vandi hans hratt.
Síðasta árið hefur verið fjölskyldunni erfitt hefur móðirin ekki getað sinnt yngsta barninu sínu eins og hún vildi, því það fer allur tími og orka í að reyna að sinna drengnum, líka þegar hann er inni á stofnun.
„Ég er að hlaupa á eftir honum og leita og þó hann sé inni á stofnun þá er ég samt að reyna að halda honum inni, þannig hann sé sáttur, því þau virðast ekki fær um þetta.“
Nú er hún að senda önnur börn af heimilinu til að geta verið með hann heima eða jafnvel senda hann til elstu systur sinnar þegar hann er undir áhrifum, svo þessi yngsta þurfi ekki að sjá hann í því ástandi.
„Við erum í allskonar svona til að reyna að forðast að senda hann inn á neyðarvistun, en neyðarvistun er það eina sem er í boði. Samt er verið að segja við mann að unglingar fari ekki alltaf þangað inn. Það eru bara ekki allir unglingar sem lenda í öndunar- eða hjartastoppi.“