Skiptu fölsuðum ökuskírteinum fyrir ófölsuð

Dæmi eru um að lögð hafi verið fram fölsuð erlend …
Dæmi eru um að lögð hafi verið fram fölsuð erlend ökuskírteini til að skipta yfir í íslensk ökuskírteini. Samsett mynd

Gefin hafa verið út íslensk ökuskírteini til útlendinga sem framvísað hafa fölsuðum erlendum  ökuskírteinum og skipt þeim fyrir íslensk. Sýslumaður hafði veður af athæfinu og verklagi hjá embættinu var breytt síðastliðið vor. 

Hin fölsuðu ökuskírteini sem lögð voru fram eru að mestu frá fólki af sama þjóðerni sem bjó áður utan EES-svæðisins. Fólk utan EES-svæðisins er skylt að skipta erlendu ökuskírteini fyrir íslenskt eftir 6 mánaða búsetu hérlendis.    

Fólk þarf að gangast undir verklegt og skriflegt próf auk þess að framvísa ökuskírteini frá heimalandinu til að geta skipt fyrir íslenskt. Það er hins vegar gert án þess að fara í ökutíma áður en að próftöku kemur.  

Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/aðsend

Breyttu reglum í vor

Hin fölsuðu ökuskírteini eru keypt á svörtum markaði og að sögn Sigríðar Kristinsdóttur, sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu, voru starfsmenn áður en verklagi var breytt í vor, ekki nægjanlega í stakk búnir til þess að þekkja fölsuð skírteini frá ófölsuðum.

„Við komumst að því að verið var að leggja fram fölsuð ökuskírteini,“ segir Sigríður.

Áður en verklagi var breytt var ýmist lagt fram erlent ökuskírteini eða staðfesting á ökuréttindum. Nú þarf fólk að leggja fram ökuskírteini og vegabréf samhliða því að biðja um að skipta um ökuskírteini í íslenskt.

Í viðleitni sinni til þess að herða eftirlit hefur sýslumaður aukið samstarf við lögreglu og Samgöngustofu.

„Ef það kemur upp vafi um það hvort skírteini sé falsað eða ekki þá sendum við það til lögreglustjórans á Suðurnesjum til yfirferðar á skilríkjarannsóknastofu,“ segir Sigríður.

Að sögn hennar var samstarfið ekki eins náið áður en þessi atvik komu upp. Hún segir umsóknum fólks sem áður bjó utan EES um að skipta um ökuskírteini hafi fjölgað mikið. 

Ómögulegt að segja til um magnið  

Hún segir ómögulegt að segja til um það hve mörg íslensk ökuskírteini hafi verið gefin út í kjölfar þess að fólk framvísaði fölsuðum ökuskírteinum. 

Ef grunur leikur á því að fólk hafi lagt fram falsað ökuskírteini þarf að kæra hvert atvik fyrir sig til lögreglu. 

„Það komu upp tilvik þar sem fólk var ekki að standast ökupróf þrátt fyrir að hafa lagt fram ökuskírteini. Við skiptum ekki út skírteinum fyrir íslensk skírteini nema fólk standist ökupróf,“ segir Sigríður. 

Strax hætt að framvísa fölsuðum skilríkjum 

Hafið þið gripið fleiri sem hafa lagt fram fölsuð skilríki frá því þið breyttuð verklagi í vor?

„Það er meira það að fólk er hætt að leggja þessi fölsuðu skírteini inn. Það veit alveg hvað er að gerast hérna og allt er orðið strangara. Við erum orðin flinkari í því að meta þetta og nú þegar við höfum beðið um eitthvað nánara, eins og staðfestingu eða annað, þá hefur fólk gjarnan bara dregið umsóknina til baka,“ segir Sigríður.

Spurð að því nánar hvað hafi breyst í verklagi, nefnir hún ýmislegt í því samhengi.

„Við höfum lagt fram þá kröfu að fólk leggi fram skírteinið sjálft með umsókninni. Hér áður fyrr voru dæmi þess í undantekningartilfellum að einungis væri lögð fram staðfesting á ökuréttindum. En það er ekki tekið gilt í dag. Nú þarft þú að leggja fram erlenda ökuskírteinið og vegabréf, samhliða því að biðja um skipti á ökuskírteini í íslenskt. Þessum reglum var breytt í vor þannig að þú legðir fram vegabréf einnig en það var ekki gert áður. Ég ítreka samt að það fær enginn að skipta ökuskírteininu nema með því að standast próf.“

Ökuprófin eru framkvæmd hjá Frumherja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert