Fjöldi Hopp-hjóla á götum borgarinnar má ekki vera meiri en er í notkun út frá meðaltali sem Reykjavíkurborg ákveður.
Hopp skilar mánaðarlega til borgarinnar upplýsingum um hversu mörg rafmagnshlaupahjól voru notuð og hversu oft, að sögn Sæunnar Óskar Unnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Hopp Reykjavíkur.
„Þau gögn sem við skilum til Reykjavíkur þá er það þessi kvóti sem við þurfum að uppfylla. Hver rafskúta verður að fara tvær ferðir á dag að meðaltali. Við megum ekki vera með rafskútur úti á götu sem er í rauninni ekki verið að nota út frá meðaltalinu,“ segir Sæunn í samtali við mbl.is.
Sæunn segist ánægð með þetta kerfi hjá borginni. Það geri það að verkum að það komi ekki tugir af rafskútuleigum og ónotuð hjól standi á víð og dreif.
Hvert rafmagnshlaupahjól hjá Hopp er notað að meðaltali í fjórar ferðir á dag. Um 3.200-3.300 hjól eru í umferð.
Frá maí og fram í október eru að meðaltali 42.000 rafskútunotendur Hopp-hjóla á mánuði.
„Við erum breytingin og nýsköpunin í ferðavenjum og þessi viðbót sem fólk er að kalla eftir. Annars værum við ekki með þessar tölur, við værum ekki með fyrirtæki með 60 starfsmönnum sem sinna rafskútunum allan sólarhringinn,“ segir Sæunn.
Hún segir að með tilkomu borgarlínu og með breyttum ferðavenjum eigi hegðun þeirra sem noti rafskútur líka eftir að breytast.
„Hér erum við í borg sem er ekki með alveg fullkomið almenningssamgöngukerfi. Við erum með almenningssamgöngukerfi sem ofboðslega margir reiða sig á en það er smá slitrótt að margra mati. Rafskútan er svo ótrúlega mikilvæg sem þessi millibót. Svo þegar borgarlínan kemur og forgangsakreinarnar koma þá breytist líka að sjálfsögðu hegðunin í rafskútunum.“