Ílát sem í voru eldfimir vökvar fundust í rústunum

Tveir menn létust í eldsvoðanum á Hjarðarhaga.
Tveir menn létust í eldsvoðanum á Hjarðarhaga. mbl.is/Eyþór

Þrjú ílát sem bendir allt til þess að hafi verið með eldfimum vökva í fundust í brunarústum íbúðarinnar við Hjarðarhaga þegar tveir menn fórust þar í eldsvoða á dögunum.

Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is en sjónarvottar lýstu því að hafa heyrt mikinn hvell í kjölfar eldsvoðans. Hann segir að rannsókn sé enn í gangi og málin skýrist frekar þegar endanleg niðurstaða úr brunarannsókn liggi fyrir.

Mennirnir sem létust í eldsvoðanum voru Bandaríkjamaður á sextugsaldri annars vegar og Tékki á fertugsaldri hins vegar.

Fjórir menn bjuggu í kjallaraíbúðinni við Hjarðarhaga þar sem eldurinn kom upp. Þrír þeirra voru í íbúðinni og létust tveir þeirra en sá þriðji, Ungverjinn Sári Morg Gergö, sem komst lífs af úr eldsvoðanum var fluttur á sjúkrahús og er að jafna sig af sárum sínum.

Spurður hvort grunur leiki á að fíkniefnaframleiðsla hafi farið fram í íbúðinni segir Ævar Pálmi að það sé ekkert sem bendi til þess.

Enginn er í haldi vegna málsins og enginn er með stöðu sakbornings að sögn Ævars Pálma.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert