Mun ekki beita sér fyrir móttökuskólum

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Ólafur Árdal

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hyggst ekki beita sér fyrir stofnun móttökuskóla eða móttökusetra fyrir börn af erlendum uppruna með takmarkaða íslenskukunnáttu.

Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Í svari ráðherra segir að börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn séu fjölbreyttur hópur sem þurfi að nálgast með ólíkum hætti. Sveitarfélög beri ábyrgð á leik- og grunnskólum, á meðan ríkið beri ábyrgð á framhaldsskólum.

Engin heildstæð áform eru uppi um sérstaka móttökuskóla, hvorki á vegum ríkis né sveitarfélaga, samkvæmt ráðherra.

Áhersla lögð á „inngildingu“

Þess í stað er lögð áhersla á „inngildingu“ og stuðning innan almenns skólastarfs. Verkefnið Menntun, móttaka, menning (MEMM) hefur verið í gangi frá 2024 og felur meðal annars í sér íslenskukennslu, menningarnæmt starf og stuðning við kennara.

„Með hliðsjón af framangreindu hyggst ráðherra ekki beita sér fyrir því að stofnaðir verði móttökuskólar eða móttökusetur fyrir börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn með takmarkaða íslenskukunnáttu,“ segir í svari ráðherra. 

Móttökudeild gefið góða raun í Reykjanesbæ

mbl.is ræddi fyrr á árinu við Unnar Stefán Sigurðsson, skólastjóra Háaleitisskóla á Ásbrú í Reykjanesbæ, en í skólanum er mót­töku­deild fyr­ir börn í leit að alþjóðlegri vernd. Hefur deildin að hans sögn stutt við aðlög­un barn­anna að ís­lensku skóla­kerfi og gefið góða raun.

Unn­ar Stefán sagði að það væri „ekki spurn­ing“ að þessi leið gæti verið fyr­ir­mynd fyr­ir aðra skóla á land­inu.

Móttökudeild­in, sem ber nafnið Friðheim­ar, var opnuð í októ­ber 2023. Áhersla er lögð á ís­lensku, stærðfræði, lífs­leikni og upp­lýs­inga­tækni. Aðlög­un­in fer þannig fram að nem­end­ur byrja í Friðheim­um en stunda leik­fimi og list- og verk­grein­ar í Háa­leit­is­skóla með jafn­öldr­um sín­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert