Bjóst ekki við því að dúxa

Matthildur Bjarnadóttir, dúx Menntaskólans í Reykjavík, við útskriftarathöfn í Háskólabíó.
Matthildur Bjarnadóttir, dúx Menntaskólans í Reykjavík, við útskriftarathöfn í Háskólabíó. Ljósmynd/Menntaskólinn í Reykjavík/Haraldur Guðjónsson Thors

Matthildur Bjarnadóttir er dúx Menntaskólans í Reykjavík en hún útskrifaðist með aðaleinkunnina 9,65 af náttúrufræðibraut 1.

Menntaskólinn í Reykjavík brautskráði 194 stúdenta í Háskólabíó föstudaginn 30. maí.

Í samtali við mbl.is segist Matthildur ekki hafa átt von á því að verða dúx skólans og það hafi ekki verið markmiðið.

„Ég hafði eiginlega bara enga hugmynd, samt vildi ég náttúrlega gera mitt besta,“ segir Matthildur.

Spurð hver sé lykillinn að árangri hennar segist hún ekki vera viss.

„Ég bara lærði mjög mikið, sko,“ segir hún og hlær.

Matthildur Bjarnadóttir útskrifaðist með aðaleinkunnina 9,65.
Matthildur Bjarnadóttir útskrifaðist með aðaleinkunnina 9,65. Ljósmynd/Menntaskólinn í Reykjavík/Haraldur Guðjónsson Thors

Stefnir á að fara í læknisfræði

Uppáhaldsfag Matthildar í skólanum var annaðhvort efnafræði eða líffræði en hún stefnir á að fara í læknisfræði í haust.

„Ég sótti um í Danmörku og á að fá svar 28. júlí,“ segir Matthildur en hún sótti um skólavist í skólum í Kaupmannahöfn, Árósum, Álaborg og Óðinsvéum.

„Þetta var bara mjög gaman, bara allt.“

Spurð hvort eitthvað sérstakt standi upp úr eftir tímann í MR segir Matthildur skólagönguna heilt yfir hafa verið mjög skemmtilega.

„Þetta var bara mjög gaman, bara allt. Mér fannst námið æðislegt og líka mjög gaman eins og á fiðluballinu og svona,“ segir Matthildur, en sjöttubekkingar skólans halda ballið árlega og dansa þar gömlu dansana.

Matthildur ásamt bekkjarfélögum sínum í 6.M á fiðluballinu.
Matthildur ásamt bekkjarfélögum sínum í 6.M á fiðluballinu. Ljósmynd/Aðsend

Matthildur fer með árgangi sínum í útskriftarferð til Albufeira í Portúgal um miðjan júní og er mjög spennt fyrir því.

Útskriftarnemendur Menntaskólans í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Háskólabíó.
Útskriftarnemendur Menntaskólans í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Háskólabíó. Ljósmynd/Menntaskólinn í Reykjavík/Haraldur Guðjónsson Thors
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert