Ákærðar fyrir mótmæli í hvalveiðiskipum Hvals

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært þær Elissu og Anahitu fyrir …
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært þær Elissu og Anahitu fyrir mótmæli þeirra í hvalveiðiskiptunum Hvali 8 og Hvali 9 árið 2023. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðgerðasinnarnir Sahar Babaei og Elissa May Phillips hafa verið ákærðar vegna mótmæla sinna um borð í Hvali 8 og Hvali 9 í september árið 2023, en þær mótmæltu þar fyrirhuguðum hvalveiðum fyrirtækisins Hvals hf.

Konurnar, sem þekktar eru undir nöfnunum Anahita Sabaei og Elissa Biou í fyrri umfjöllun fjölmiðla, fóru um borð í skipin í heimildarleysi aðfararnótt mánudagsins 4. september og komu sér fyrir í tunnum í mastri skipanna og neituðu í kjölfarið að yfirgefa þau þrátt fyrir fyrirmæli lögreglunnar.

Mótmælin fengu mikla athygli, en konurnar komu ekki niður fyrr en einum og hálfum sólarhring síðar eftir mikið samtal við lögregluna sem að endingu aðstoði þær við að fara niður úr möstrunum.

Konurnar mótmæltu hvalveiðum með að fara í möstur hvalveiðiskipanna Hvals …
Konurnar mótmæltu hvalveiðum með að fara í möstur hvalveiðiskipanna Hvals 8 og 9 í september 2023 áður en halda átti til hvalveiða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Voru þær í kjölfarið færðar á brott í lögreglubíl, en sama dag var greint frá því að Hvalur hf. hefði kært konurnar. Sama dag lögðu skipin af stað til hvalveiða.

Samkvæmt ákæru eru Anahita, sem er ríkisborgari Íran, og Elissa, sem er ríkisborgari Bretlands, ákærðar fyrir húsbrot og brot gegn lögum um siglingarvernd. Í almennum hegningarlögum getur húsbrot varðað allt að sex mánaða fangelsi, þó beita megi allt að eins árs fangelsi ef sakir eru miklar, en þá er vísað til þess ef viðkomandi sé vopnaður eða hafi beitt ofbeldi.

Aðgerðasinnarnir Elissa og Anahita voru í möstrunum í einn og …
Aðgerðasinnarnir Elissa og Anahita voru í möstrunum í einn og hálfan sólarhring. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Varðandi brot á lögum um siglingarvernd er í ákæru vísað til greinar laganna um aðgang að hafnaraðstöðu. Þar er „án heimildar hafnaryfirvalda, skipstjóra, eiganda skips eða útgerðarfélags er einstaklingi óheimilt að fara um borð í skip, taka sér far með skipi eða gera tilraun til þess að ferðast sem laumufarþegi með skipi í eða úr íslenskri lögsögu.“ Getur brot á þessum lögum varðað sektum, en fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert