Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, segir að Framsóknarflokkurinn þurfi að fara aftur í grunngildin í kjölfar þess að flokkurinn mældist með sitt minnsta fylgi frá upphafi mælingar. Hún furðar sig á því að eitt af helstu stefnumálum flokksins hafi setið á hakanum í síðustu kosningabaráttu.
Þetta segir hún í samtali við mbl.is en á mánudaginn birti Gallup könnun þar sem flokkurinn mældist með 5,5% fylgi.
„Framsókn þarf að fara aftur í grunngildin, standa með heimilunum í landinu, skoða hvað er hægt að gera betur og fara í alvöru samtal við þjóðina,“ segir hún.
Framsóknarflokkurinn galt afhroð í kosningunum síðasta vetur, fékk 7,8% atkvæða og tapaði átta þingmönnum á milli kosninga. Lilja segir flokkinn þurfa skýrari sýn og fara betur yfir hvað hafi farið úrskeiðis í síðustu kosningum.
„Af hverju fór hann frá grunnstefnumáli eins og því að það væri hægt að nota séreignasparnaðinn til að auðvelda fyrir um húsnæðiskaup? Þarna fór flokkurinn frá því sem var samþykkt á flokksþingi,“ segir Lilja og bætir við:
„Það þarf aftur að ná þessu talsambandi við kjósendur, einblína á verðmætasköpun og heimilin, og það þarf skýra sýn og dugnað til þess að ná fylginu aftur upp.“
Í skoðanakönnun sem framkvæmd var af Maskínu í maí sögðust 29,3% framsóknarmanna hlynnt því að sjá Lilju sem næsta leiðtoga flokksins. 33,1% svarenda sögðust styðja Willum Þórsson, nýkjörinn formann ÍSÍ.
Aftur á móti sögðu aðeins 18,7% svarenda að þeir vildu sjá Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknar, gegna formannsembættinu áfram.
Telur þú Sigurð Inga bera ábyrgð á slöku fylgi flokksins?
„Ég tel að það þurfi að skerpa á stefnumálum flokksins og það hefur ekki komist nægilega vel til skila. Þannig það er mikilvæg vinna fram undan,“ segir Lilja.
Flokksþing Framsóknar á að fara fram eigi síður en árið 2026 en sumir Framsóknarmenn hafa viðrað hugmyndir um að flýta flokksþinginu.
Lilja segir aðspurð að slík ákvörðun sé undir miðstjórn flokksins komin, sem fundar næst í haust.
„Það er augljóst að fram undan er mikil vinna fyrir forystu flokksins, fyrir flokksmenn og fyrir alla vegna þess að ég hef þá trú að flokkur sem stendur fyrir samvinnu og aukinni verðmætasköpun, til að bæta hag landsmanna, eigi alltaf erindi,“ segir hún.