Landris og kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi en dregið hefur jafnt og þétt úr hraða kvikusöfnunarinnar sé miðað við hraðann í apríl og fyrrihluta maí.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að ef kvikusöfnun haldi áfram með svipuðum hraða og undanfarnar vikur megi áfram gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi eða eldgosi fari að aukast þegar líða fer á haustið. Breytingar á hraða landriss, og þar með kvikusöfnunar undir Svartsengi, geta þó haft áhrif á þetta mat.
Fram kemur í tilkynningunni að undanfarna daga hafi mælst á bilinu 10 til 20 smáskjálftar á hverjum degi á svæðinu í kringum kvikuganginn sem myndaðist þann 1. apríl síðastliðinn en dregið hefur jafnt og þétt úr virkninni síðustu vikur.
Skjálftarnir eru flestir í tveimur þyrpingum annars vegar sunnarlega á kvikuganginum nærri Grindavík og hinsvegar á svæðinu milli Sundhnúks og Stóra Skógfells.
Hættumat hefur verið uppfært og helst óbreytt og gildir til 18.júní að öllu óbreyttu.