Halla sló í gegn í Tókýó

Halla Tómasdóttir forseti Íslands var aðalgestur á málþingi um jafnréttismál sem haldið var í Tsuda-háskóla, Sendagaya, í Tókýó síðastliðinn laugardag. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri Reykjavíkur tók þátt í síðari hluta málþingsins, sagði frá stefnu borgarinnar í þessum málaflokki og svaraði spurningum.

Tsuda-háskóli er einkaskóli fyrir konur og er nefndur eftir Tsuda Umeko sem var brautryðjandi í menntun kvenna í Japan. Vakning er í jafnréttismálum í Japan og Tsuda til heiðurs var gefinn út peningaseðill með mynd af henni í fyrra.

Heiða Björg borgarstjóri og Halla forseti ræddu við ungar japanskar …
Heiða Björg borgarstjóri og Halla forseti ræddu við ungar japanskar konur í síðari hluta jafnréttisþingsins. mbl.is/Baldur Arnarson

Heimsókn Höllu hófst með því að hún heilsaði upp á stúlkur í skólanum en það sýndi sig í opinberri heimsókn hennar til Japans að hún á auðvelt með að tengjast fólki.

Samtal við þingkonur

Síðan var haldið í fyrirlestrasal og hófst málþingið með því að Halla ávarpaði gesti. Síðan átti hún samtal við japönsku þingkonurnar Karen Makishima, Harumi Yoshida, Mitsuko Ishii, Takae Ito, Yoriko Madoka, Yoshiko Kira, Mari Kushibuchi og Mizuho Fukushima en segja má að þær spanni hið pólitíska litróf.

Japanskar konur sýndu málflutningi Höllu Tómasdóttur og Heiðu Bjargar Hilmisdóttur …
Japanskar konur sýndu málflutningi Höllu Tómasdóttur og Heiðu Bjargar Hilmisdóttur mikinn áhuga. Mbl.is/Baldur

Eftir hlé ræddu þær Halla og Heiða Björg við ungt fólk um jafnréttismálin. Með þeim voru þrjár ungar konur í skólanum, Mao Nagafuchi, Moe Yamauchi og Maho Ueno, ásamt Yuki Murohashi sem var fulltrúi samtaka ungs fólks í Japan (e. Japan Youth Conference). Meiko Kawanishi, fréttamaður hjá Nagoya News Bureau, stýrði umræðum en við þetta tækifæri sagði Heiða Björg frá stefnu Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum.

Heiða Björg Hilmisdóttir og dr. Yuko Takahashi, rektor Tsuda-háskóla.
Heiða Björg Hilmisdóttir og dr. Yuko Takahashi, rektor Tsuda-háskóla. Mbl.is/Baldur Arnarson

Myndband íslenskra fulltrúa

Jafnréttisþingið hófst klukkan 10 og stóð yfir til hádegis. Áður en það hófst var myndband íslensku ungmennafulltrúanna á Heimssýningunni í Osaka sýnt en það var frumsýnt í skála Sameinuðu þjóðanna á sýningunni á þjóðardegi Íslands 29. maí.

Húsfyllir var á jafnréttisþinginu í Tsuda-háskóla í Tókýó síðastliðinn laugardag.
Húsfyllir var á jafnréttisþinginu í Tsuda-háskóla í Tókýó síðastliðinn laugardag. mbl.is/Baldur

Konur voru í miklum meirihluta meðal gesta á jafnréttisþinginu og var greinilegt að málflutningur Höllu og Heiðu Bjargar höfðaði til þeirra. Mikið hallar á konur í japönsku skólakerfi. Þannig upplýsti einn fundargesta í samtali við blaðamann að konur stýri aðeins fáeinum af um 700 háskólum í Japan.

Halla Tómasdóttir forseti Íslands ræðir við japanskar þingkonur um jafnréttisbaráttuna.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands ræðir við japanskar þingkonur um jafnréttisbaráttuna. mbl.is/Baldur Arnarson


Sáu ekki fyrir sér konur

Halla forseti sagði sögu af því þegar hún var beðin um að koma í skólabekkinn hjá dóttur sinni, eftir framboð sitt til forseta árið 2016, og ræða við nemendur. Halla varð þá þjóðþekkt á Íslandi eftir að hafa orðið önnur í forsetakosningunum á eftir Guðna Th. Jóhannessyni sem var kjörinn forseti og svo aftur árið 2020.

Glatt var á hjalla þegar Halla heilsaði upp á stúlkur …
Glatt var á hjalla þegar Halla heilsaði upp á stúlkur í Tsuda-háskóla fyrir málþingið. mbl.is/Baldur Arnarson


Halla sagði málið svolítið snúast um hugarfar skorts en andstæðan sé hugarfar allsnægta. Þá vék hún að mikilvægi þess að huga jafnframt að réttindum drengja enda eigi margir drengir erfitt með að finna sig í samtímanum.

„Ef við höfum hugarfar skortsins að þá höldum við að ef konur og stúlkur fái að vaxa og dafna að þá geti karlar og drengir það ekki,“ sagði Halla. Raunin væri sú að með meiri réttindum sköpuðust meiri möguleikar fyrir alla, öllum til heilla. Það taki ekki réttindi af neinum að auka réttindi annarra.

„Mig langar til að segja ykkur sögu sem ég tel vera áhrifamikla, enda horfið þið til okkar [Íslendinga] sem erum í efsta sæti hvað varðar jafnrétti kynjanna en við erum mjög stolt af því að hafa gert það í 15 ár. Það hefur tekið langan tíma að komast þangað. En fyrir aðeins níu árum, eftir að ég hafði boðið mig fram til forseta í fyrsta skipti, báðu 13 ára dóttir mín og kennarinn hennar mig um að koma og tala við bekkinn hennar um starfsval. Ég ákvað að fara og biðja drengina og stúlkurnar, 13 ára gömul, að teikna mynd af forseta, kennara og frumkvöðli. Með tveimur undantekningum teiknuðu allir drengirnir og allar stúlkurnar karlkyns frumkvöðul, kvenkyns kennara og karlkyns forseta, jafnvel þótt ég stæði fyrir framan þau, jafnvel í jafnréttissinnaðasta landi heims,“ sagði Halla en þýtt er úr ensku.

Málþing Höllu auglýst fyrir utan Tsuda-háskóla í Tókýó.
Málþing Höllu auglýst fyrir utan Tsuda-háskóla í Tókýó. Mbl.is/Baldur

Höfum glatað visku

„Það er nauðsynlegt fyrir konur og karla, drengi og stúlkur, að vinna með þessa ómeðvituðu fordóma okkar og hugmyndir. Það er auðveldara þegar þau eru ung,“ sagði Halla sem kvaðst hafa sýnt bekknum myndbönd af fólki sem hefði brotið blað með því að ganga gegn dæmigerðum hugmyndum um hlutverk kynjanna.

„Við ræddum um hvað þau vildu verða, án þeirra takmarkana sem við setjum oft ómeðvitað á okkur sjálf og aðra. Ég tel mjög mikilvægt að taka þetta samtal á dýptina.

Tsuda-háskóli er einkaskóli fyrir konur og er nefndur eftir Tsuda …
Tsuda-háskóli er einkaskóli fyrir konur og er nefndur eftir Tsuda Umeko sem var brautryðjandi í menntun kvenna í Japan. Mbl.is/Baldur

Ég tel að þegar sú samræða getur átt sér stað milli kynslóða muni hún skila miklum árangri,“ sagði Halla og vék að mikilvægi þess að visku sé miðlað milli kynslóða.

„Við sem eldri erum lifðum í heimi þar sem við vorum ekki háð snjallsímunum okkar og samfélagsmiðlum. Þá kunni fólk að tengjast sjálfu sér og hvert öðru og náttúrunni og finna tilgang. Síðustu 10 ár hefur það gerst að snjallsíminn er orðinn nánast innbyggður í höndina á okkur. Við höfum glatað mikilli visku og miklum innri friði og vellíðan.“

Konur stýra aðeins fáeinum af ríflega 700 háskólum í Japan.
Konur stýra aðeins fáeinum af ríflega 700 háskólum í Japan. mbl.is/Baldur Arnarson

Sundrar fólki í fylkingar

„Það lætur okkur næstum vilja skipta öllum í stríðandi hópa því við lifum aðskilin frá öllu sem skiptir máli. Við höfum misst tengslin við það sem skiptir máli,“ sagði Halla sem kvaðst sannfærð um að það skili miklum árangri á þessu sviði að hlusta á unga fólkið og læra af því.

„Við þurfum að sækja í visku þeirra sem á undan komu. Við sem erum á miðjum aldri, sem erum vanalega þau okkar sem hafa stöðu og áhrif, þurfum að finna hugrekki til að setja þessa umræðu inn í skólana okkar, inn í samfélag okkar, inn í fjölmiðlana okkar, inn í fjölskyldur okkar, því jafnvel í jafnréttissinnaðasta landi heims erum við ekki komin á leiðarenda,“ sagði Halla sem taldi slíkt samtal kynslóðanna öflugasta tækið til að koma á slíkri umbreytingu öllum til heilla.

Regnbogagata í Reykjavík

Heiða Björg borgarstjóri ræddi einnig jafnrétti kynjanna og vék þá að réttindum transfólks í Reykjavík.

Rut Einarsdóttir, fremst fyrir miðju, kom að skipulagningu málþingsins en …
Rut Einarsdóttir, fremst fyrir miðju, kom að skipulagningu málþingsins en hún er starfsnemi í sendiráði Íslands í Tókýó. Hægra megin við hana er Álfrún Pálsdóttir, fagstjóri almannatengsla hjá Íslandsstofu. mbl.is/Baldur Arnarson

 

Sagði hún mikilvægt að hlúa ekki aðeins að réttindum karla og kvenna heldur þyrfti að huga að réttindum allra kynja.

„Því núna erum við líka að viðurkenna að fólkinu sem líður verst í samfélagi okkar eru þau sem finnast þau ekki vera fædd í rétta líkamanum. Nú höfum við sérstakan stað fyrir fólk og sérstakan stuðning fyrir ungt fólk sem líður þannig. Við styðjum LGBTQ-fólk til að vera opið. Við erum með þessa regnbogagötu [á Skólavörðustíg],“ sagði Heiða Björg og bauð japanska gesti málþingsins velkomna til að kynna sér þessi mál í Reykjavík.

Björn Skúlason, eiginmaður Höllu forseta er hér fyrir miðju fremst. …
Björn Skúlason, eiginmaður Höllu forseta er hér fyrir miðju fremst. Vinstra megin við hann eru Heiða Björg borgarstjóri og Yano Mariko, starfsmaður japanska sendiráðsins á Íslandi. Á bak við þau frá hægri eru Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, skrifstofustjóri menningarborgar á menningar- og íþróttasviði borgarinnar, Marta Jónsdóttir, full­trúi ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins í samn­or­rænni stjórn skála Norður­landaþjóðanna á Heims­sýn­ing­unni í Osaka í Jap­an, Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Japan, og Sif Gunnarsdóttir forsetaritari. mbl.is/Baldur Arnarson

 

Jafnrétti fyrir alla skilar betri borgum

„Við reynum líka að sýna stuðninginn í verki með því að hafa rými þar sem fólk getur hist og rætt saman, og fengið meiri stuðning, sérstaklega unga fólkið. Nú erum við að skoða hvernig við ætlum að koma fram við fólk þegar það opnar sig varðandi mismunandi kyn. Því við erum vön því að ræða hlutina út frá körlum og konum. Það er einfaldlega þannig að þegar við förum að hugsa málin á þennan veg fáum við mun betri borgir. Við fáum svo miklu betra samfélag. Það er svo miklu betra. Ég held að ef við næðum bara að loka kynjagjánni myndum við hafa minni heilsufarsvandamál, og almennt minni vandamál, og það myndi spara okkur mikið fé,“ sagði Heiða Björg borgarstjóri í lauslegri þýðingu úr ensku.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert