Segir ríkisstjórnina ósamstíga

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Eyþór

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir ríkisstjórnina vera ósamstiga og bendir á að frumvarp um bætur almannatryggingakerfisins hafi verið samþykkt þrátt fyrir athugasemdir fjármálaráðherra. Forsætisáðherra þvertekur fyrir staðhæfingu Hildar og segir ríkisstjórnina stolta af frumvarpinu. 

Hildur spurði Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra um skipulag ríkisstjórnarinnar í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi fyrr í dag.

Ríkisstjórninni er tíðrætt um að vera sérlega samstiga í öllum sínum störfum og er það vel. En það er nú reyndar svo að atvik síðustu vikna benda til þess að svo sé kannski alls ekki,“ sagði Hildur.

„Er fjármálaráðherra hættur í þessari ríkisstjórn?“

Daði Már Kristó­fers­son fjár­málaráðherra gerði nýverið al­var­leg­ar at­huga­semd­ir við frum­varp Ingu Sæ­land, fé­lags- og hús­næðismálaráðherra, um tengingu bóta almannatryggingakerfisins við launavísitölu í minn­is­blaði sem fjármálaráðuneytið sendi vel­ferðar­nefnd.

„Það virðist vera ákveðið þema hjá þessari ríkisstjórn að hlusta ekki á þær faglegu athugasemdir sem berast um mál,“ sagði Hildur.

Hún bætti við að það væri ekkert til sem kallaðist álit fjármálaráðuneytisins, allt sem kæmi þaðan væri í nafni og á ábyrgð fjármálaráðherra. 

„Er hæstvirtur fjármálaráðherra hættur í þessari ríkisstjórn eða hafa hans sjónarmið ekkert vægi við ríkisstjórnarborðið, hið samhenta ríkisstjórnarborð?“

Markmiðið að stöðva kjaragliðnun

Kristrún tók þá til máls og sagði að fyrirætlanir ríkisstjórnar væru að stöðva kjaragliðnun hópsins sem bæturnar ættu við. Hún sagði að búið væri að fjármagna fyrirætlanirnar og því um pólitíska forgangsröðun að ræða.

Kristrún sagði enn fremur að Daði hefði samþykkt frumvarpið og tekið fram að í minnisblaðinu væri einna helst verið að leggja áherslu á kostnaðinn sem þessum aðgerðum fylgdi. Það þyrfti að fjármagna fyrirætlanirnar og það væri ríkisstjórnin að gera að sögn Kristrúnar. 

„Þessi ríkisstjórn er samstiga. Það liggur alveg fyrir. Þetta var samþykkt einróma út úr ríkisstjórn og við erum stolt af þessu frumvarpi.“

„Hvor er að segja satt?“

Hildur benti jafnframt á skoðanamun milli Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Flokks fólksins, um fjölda leyfilegra daga í strandveiðum.

Í frumvarpi atvinnuvegaráðherra kæmi fram hvort skoða ætti að minnka leyfilegt magn á hverjum degi til að mæta fjölda daga. 

Hér er búið að dreifa þessu frumvarpi og ekki búið að leiðrétta þessi orð eða ekki búið að prenta það upp á nýtt eða dreifa aftur. Því er rétt að spyrja hæstvirtan forsætisráðherra, verkstjórann, hvort sé rétt. Kemur til greina að gera þessar breytingar? Hvor er að segja satt,“ spyr Hildur.

Báðir segja satt

Kristrún sagði báða aðila segja satt og bætti við að atvinnuvegaráðherra hefði lýst því yfir að ekki stæði til að minnka daglegt magn. 

„Það er ekkert óeðlilegt við nefndaryfirferð að alls konar valkostum sé velt upp, sérstaklega ef fólki finnst þetta vond hugmynd eða hefði viljað gera þetta með öðrum hætti en kemur fram í frumvarpinu.

Hún sagði ríkisstjórnina standa á bak við frumvarpið og sagði vilja til að rýmka fyrir heimildum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert