Skýrslutökur eru hafnar hjá lögreglunni á Suðurlandi varðandi gagnalekamálið svokallaða.
Þetta upplýsir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögreglustjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Í samtali við mbl.is segist Jón ekki geta sagt til um réttarstöðu hvers og eins sem á hlut í máli en segir lögreglu nú vera að safna og fara yfir gögn í málinu.
„Okkur miðar ágætlega í þessu en við eigum talsvert verk fyrir höndum.“
Þá segir hann ekki hægt að segja til um hve lengi rannsókn málsins muni standa yfir enn sem komið er.
Ríkissaksóknari fól lögreglunni á Suðurlandi að rannsaka meint brot er varða umfangsmikinn gagnastuld úr kerfum sérstaks saksóknara af hálfu njósnafyrirtækisins PPP fyrir rúmum áratug. Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur einnig tekið upp málið.
PPP var stofnað árið 2011 af tveimur lögreglumönnum; Jóni Óttari Ólafssyni afbrotafræðingi og Guðmundi Hauki Gunnarssyni lögfræðingi, sem er látinn. Þeir höfðu árið 2009 yfirgefið lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og gengið til liðs við embætti sérstaks saksóknara.