Borgaryfirvöld gera nú allt sem í þeirra valdi stendur til þess að eyðileggja starfsemi Aþenu í Breiðholti. Þetta segir Brynjar Karl Sigurðsson í samtali í Spursmálum. Í því felist kvenfyrirlitning.
Þátturinn var sýndur hér á mbl.is fyrr í dag en upptaka af honum er öllum aðgengileg í spilaranum hér að ofan, á Spotify og YouTube.
Um liðin mánaðamót rann út samningur Reykjavíkurborgar við félagið sem starfað hefur frá 2019 og hefur notið mikilla vinsælda meðal stúlkna sem notið hafa leiðsagnar Brynjars Karls.
Hann er gestur Spursmála að þessu sinni og ræðir félagið og þá aðferðafræði sem hann segir fela í sér valdeflingu ungra kvenna sem ekki sé vanþörf á. Samfélagið reyni í alltof miklum mæli að hlífa stúlkum og bregðist með því framtíðarmöguleikum þeirra.
Í þætti dagsins er einnig rætt við Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra. Nú munu margar vikur líða þar til gluggi opnast að nýju á að lækka stýrivexti. Tilkynnt verður um næstu vaxtaákvörðun þann 20. ágúst. Jafnvel þótt sá dagur færist nær er hins vegar allsendis óvíst hvort hægt verður að lækka stýrivexti frekar. Þeir standa nú í 7,5%.
Og hvað segir Ásgeir um fasteignamarkaðinn? Stendur til að rýmka lánþegaskilyrði á komandi mánuðum eða er samfélagið fast í víxlverkan hækkandi fasteignaverðs og of lítils framboðs húsnæðis?
Þá mæta þeir einnig til leiks, Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins.
Ekki er hægt að stóla á að þeir muni liggja á skoðunum sínum um helstu málefni líðandi stundar.
Fylgstu með og láttu lifandi umræðu og upplýsandi ekki fram hjá þér fara.