Kýldi konu eftir samfarir

Héraðsdómur Reykjavíkur taldi rannsókn lögreglu ekki fullnægjandi.
Héraðsdómur Reykjavíkur taldi rannsókn lögreglu ekki fullnægjandi. mbl.is/Karítas

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði á dögunum mann á fertugsaldri af ákæru um nauðgun. Héraðsdómur fann hann hinsvegar sekan um það að hafa kýlt aðra konu eftir að hafa stundað með henni samfarir. 

Maðurinn var dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir það að hafa kýlt konuna. 

Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Rannsókn lögreglu ábótavant

Manninum var gefið að sök að hafa nauðgað konu á heimili hennar sumarið 2021. Þau hefðu tekið leigubíl saman heim til hennar úr gleðskap í miðbæ Reykjavíkur og að sögn konunnar hafi maðurinn átt við hana harkalegt kynlíf í leggöng og endaþarm gegn hennar vilja.

Konan óttaðist á tímabili um líf sitt samkvæmt dómnum. 

Héraðsdómur taldi að ekki hafi verið sannað að maðurinn hafi nauðgað konunni. Dómurinn gagnrýnir rannsókn lögreglu í málinu og segir að það hefði verið hægt að standa betur að skýrslutökum.

Einnig skoraði verjandi konunnar, að sögn dómsins, ítrekað á lögreglu að aflað yrði gagna úr síma konunnar en það var ekki gert. 

Kýldi konuna með krepptum hnefa 

Maðurinn var hinsvegar eins og áður segir sakfelldur í héraðsdómi fyrir það að hafa kýlt aðra konu árið 2023. 

Frásögn konunnar var á þá leið að í kjölfar þess að hún hafi haft samfarir með manninum hafi hún spurt manninn hvort hann gæti ekki meir. Maðurinn hafi í kjölfarið kýlt hana með krepptum hnefa. 

Héraðsdómur taldi gögn málsins renna stoðum undir frásögn konunnar og var maðurinn því fundinn sekur um líkamsárás. 

Héraðsdómur leit við ákvörðun refsingar til þess að maðurinn átti fyrir utan brot á umferðarlögum ekki brotaferil að baki og til þess að konan hafi ekki hlotið verulegt tjón af hnefahögginu.

Maðurinn var því dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og einnig gert að greiða konunni 250.000 krónur í miskabætur. Auk þess var honum gert að greiða málskostnað og helming af málsvarnarlaunum verjanda síns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert