Niðurstaða er væntanleg eftir helgi í máli Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara, að sögn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur síðan í desember afþakkað starfskrafta Helga Magnúsar og ekki falið honum nein verkefni til úrlausnar þar sem hún segir hann skorta almennt hæfi til að gegna embætti vararíkissaksóknara.
Helgi hefur þannig ekki fengið verkefni síðan hann sneri aftur til starfa í desember í kjölfar þess að þáverandi dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, hafnaði beiðni Sigríðar um að reka Helga vegna ummæla vararíkissaksóknarans á Facebook um innflytjendur frá Mið-Austurlöndum.
Þorbjörg sagði 25. maí að niðurstöðu í málinu væri að vænta á næstu dögum en nú virðist sem svo að það sé á lokametrunum.
„Það skýrist eftir helgi,“ sagði Þorbjörg í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Samkvæmt heimildarmönnum Morgunblaðsins hefur Þorbjörg boðið Helga Magnúsi að taka við endurvöktu embætti vararíkislögreglustjóra.