Staðan langverst í Reykjanesbæ

Börn að leik í leikskóla.
Börn að leik í leikskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í Reykjanesbæ hefja flest börn leikskóladvöl þegar þau eru 24 til 29 mánaða gömul, á sama tíma og meðalaldur barna í Garðabæ við upphaf leikskólagöngu er 15 mánuðir.

mbl.is hafði samband við stærri sveitarfélög landsins og bað um meðalaldur barna þegar þau hefja dvöl í leikskóla. Sex sveitarfélög svöruðu en ekki bárust svör frá Árborg og Reykjavík áður en fréttin var skrifuð.

mbl.is óskaði eftir nákvæmum upplýsingum um meðalaldur barna í Reykjanesbæ en slíkar tölur virðast ekki liggja fyrir miðað við skort á nákvæmum svörum leikskóla­fulltrúa sveitarfélagsins, Ingibjörgu Bryndísi Hilmarsdóttur.

Aftur á móti sagði hún börn hefja dvöl á aldursbilinu 20-29 mánaða, þar af væru flest börn að byrja á aldrinum 24-29 mánaða. Má af því ráða að meðalaldurinn sé hærri en 24 mánaða. Ekkert sveitarfélag sem svaraði mbl.is er með jafn háan meðalaldur. 

„Þegar þau byrja í leikskóla getur verið allt frá 20 mánaða og upp í 28-29 mánaða, en það má segja að flest börn eru um 2 -2,5 ára,“ segir Ingibjörg í skriflegu svari.

15 mánaða meðalaldur á árinu

Ásta Sigrún Magnúsdóttir, samskiptastjóri Garðabæjar, segir að sveitarfélagið hafi þá yfirlýstu stefnu að um leið og leikskólapláss losni, hvenær sem er yfir árið, að þá séu börn innrituð. Í vor gat Garðabær boðið allt niður í átta mánaða börnum að hefja leikskóladvöl að hausti, þegar þau eru þá 12 mánaða.

„Undanfarið ár er meðalaldur barna þegar þau hefja leikskólagöngu í Garðabæ 15 mánuðir. Við upphaf dvalar að hausti eru flest þeirra barna 12 mánaða,“ segir hún.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, samskiptastjóri Hafnarfjarðar, segir að í haust sé meðalaldur barna sem hefja leikskóladvöl 17,7 mánaða í Hafnarfirði.

Meðalaldur undir 20 mánuðum í Kópavogi

Magnea Steinunn Ingimundardóttir, verkefnastjóri hjá Mosfellsbæ, segir að meðalaldur barna sem hefja leikskóladvöl í Mosfellsbæ í haust sé á bilinu 17-18 mánaða.

Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrabæjar, segir meðalaldur barna sem hefja leikskóladvöl á Akureyri vera 19 mánaða.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir í samtali við Morgunblaðið að öll börn fædd í júní 2024, 14 mánaða, hafi fengið pláss í haust. Meðalaldurinn sé samt 19,7 mánaða.

„Ef við tökum þau börn sem komust ekki inn í fyrra og voru á biðlista þá er meðalaldurinn 19,7 mánaða,“ segir hún.

Í Reykjavík var meðalaldur 22 mánuðir í fyrra

Eins og fyrr segir þá bárust ekki svör frá Reykjavík né Árborg áður en fréttin var skrifuð og því óljóst hver meðalaldurinn er í þeim sveitarfélögum. 

Fyrr á árinu kom tilkynning frá borginni þar sem sagði að öll börn sem verða 18 mánaða eða eldri 1. sept­em­ber næst­kom­andi, og eru með um­sókn í borg­ar­rekna leik­skóla, hafa fengið boð um vist­un á leik­skóla. Þetta segir þó ekki endilega hver meðalaldurinn er. 

Samkvæmt frétt mbl.is sem var birt í desember 2024 þá var meðal­ald­ur barna sem kom­ust að í leik­skóla í Reykja­vík um 22 mánuðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert