Þorleifur Gaukur Davíðsson tónlistarmaður flutti til Nashville fyrir tveimur og hálfu ári. Hann hefur leikið með listamönnum eins og Laufeyju, Kaleo, Bríeti, KK, Mugison og fleirum. Á síðasta ári kom út fyrsta plata hans með frumsömdum lögum, Lifelines.
Nú heldur Þorleifur Gaukur tónleika hér á landi ásamt tveimur bandarískum tónlistarmönnum, Sterling Drake og Lillian Leadbetter.
Þorleifi Gauki hefur gengið mjög vel að koma sér á framfæri í Nashville. „Í byrjun tók ég öllum boðum sem bárust og og smám saman fór ég að finna minn hóp og gat valið úr verkefnum.
Nashville er tónleikaborg og þar er stöðug tónlistarstarfsemi. Maður finnur vel fyrir hefðinni og kunnáttunni. Ég læri eitthvað á hverjum einasta degi. Ég er að vinna með mjög flottu fólki sem er vinnusamt og vill allt fyrir mann gera,“ segir hann.
Hann hefur spilað á plötur auk þess að koma fram á tónleikum. Hann var meðal tónlistarmanna sem sáu um hljóðfæraleik á Trail of Flowers-plötu Sierra Ferrell sem fékk nokkur Grammy-verðlaun. „Sú viðurkenning skipti miklu máli, er ákveðinn gæðastimpill og platan er nokkuð þekkt í Nashville. Í kjölfarið á því verkefni og verðlaununum kom meðbyr og fleiri verkefni.“
Munnharpan er aðalhljóðfæri Þorleifs og hann spilar aðallega eigin tónlist. „Ég hef alltaf verið upptekinn af amerískum blús og tengingin við djass og bluegrass hefur verið mjög sterk. Svo fór ég til Nashville og fannst ég vera að spila minn tón en þá voru fyrstu viðbrögðin þau að þarna væri kominn íslenskur tónn. Ég kemst ekki undan því að ég var alinn upp á Íslandi og þegar ég var krakki söng mamma fyrir mig Sofðu unga ástin mín og önnur lög og það hefur haft sín áhrif á listsköpun mína. Smám saman fór ég að finna að ég hafði eitthvað að segja af því að ég kom til Nashville með annan vinkil.“
Þorleifur Gaukur hefur stýrt upptökum á plötum, en hann er með sérhannað hljóðver í kjallaranum á heimili sínu. Nýlega fékk Þorleifur Gaukur heimsókn frá KK, Mugison og Jóni Jónssyni sem komu þangað til að taka upp nokkur lög. Þorleifur stjórnaði upptökunum.
„Það var óskaplega gaman að fá þá. Ég kynnti KK fyrir Jeff Taylor, sem er frábær píanóleikari og hefur spilað með Bob Dylan og Elvis Costello. Jeff spilar á píanó, orgel og harmoniku á plötunni. Ég hafði á tilfinningunni að þeir KK myndu ná vel saman. Það reyndist rétt, þeir urðu strax eins og bræður. Það var svo fallegt að sjá þessa tvo heima mætast.“
Þorleifur Gaukur kynntist Jeff Taylor í gegnum Sterling Drake, sem kemur fram með honum á tónleikunum hér á landi. Í fyrra vann Drake verðlaunin „Honky Tonk Artist of the Year“ á Ameripolitan-hátíðinni frægu.
„Ég kynntist Sterling í Nashville og við byrjuðum að spila saman og náðum góðri tengingu. Ég er heillaður af hans heimi og hann er heillaður af mínum heimi. Hann er alvöru kúreki og hefur unnið á búgörðum víða um Bandaríkin. Hann kom því í gegn að ég spilaði á tónlistarhátíð sem heitir The National Cowboy Poetry Gathering.
Ég stýrði upptöku á nýrri plötu hans The Shape I’m In, sem hefur verið að vekja mikla athygli víða um heim. Það var í fyrsta sinn sem ég tók að mér að stýra upptökum. Við réðum Jeff Taylor og Dennis Crouch, sem er bassaleikari hjá Ringo Starr. Þetta eru menn sem þekkja bransann út og inn og ég lærði ansi mikið af því að vinna með þeim.
Ég stjórnaði líka upptökum á plötu sem er að koma út með Lillian, það er verið að hljóðblanda þá plötu.“
Þorleifur Gaukur, Sterling Drake og Lillian Leadbetter spiluðu í Reykhólakirkju síðastliðinn föstudag. Laugardaginn 7. júní koma þau fram í Fríkirkjunni í Reykjavík og sunnudaginn 8. júní verða þau í Miðgarði á Hvolsvelli.
Á tónleikaferðalaginu spilar Þorleifur Gaukur á nokkur hljóðfæri, þar á meðal slide-gítar og mandólín og munnhörpu. Sterling og Lillian syngja og spila á gítar. „Sterling kemur úr hefðbundinni sveitatónlist og sækir innblástur í alls konar hluti og Lillian sækir innblástur úr amerískri grasrótartónlist. Þau flytja mest frumsamda tónlist en líka einstaka kúrekalög.“
Eftir tónleikana hér á Íslandi heldur Þorleifur Gaukur til Hollands, þar sem hann mun spila í sjónvarpsþætti.
Í júlí heldur hann tónleika með KK og Mugison í Bæjarbíói og fyrir jól munu félagarnir þrír halda tónleika í Fríkirkjunni. Hann fer með hljómsveitinni Kaleo í tónleikaferð um Evrópu í júní og um Bandaríkin í ágúst og september.
„Ég er stöðugt í nýjum verkefnum og fer úr einu í annað. Það er nærandi og heldur mér ferskum,“ segir hann.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.