Minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis mun mæla gegn fjölmiðlafrumvarpi Loga Más Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, í minnihlutaáliti, að sögn Snorra Mássonar, þingmanns Miðflokksins.
Til umræðu er álit minnihluta nefndarinnar á frumvarpi Loga til breytingar á fjölmiðlalögum sem hann lagði fram drög að 20. febrúar og gerir ráð fyrir að hlutfall stuðningsgreiðslu til hvers umsækjanda um stuðning geti ekki orðið hærra en 22 prósent af heildarfjárveitingu til þess verkefnis.
„Við munum mæla gegn frumvarpinu á þeim grundvelli að þetta eru fjölmiðlar sem eru í mjög viðkvæmri stöðu og það er vægast sagt mjög undarlegt að stjórnvöld höggva í þessa fjölmiðla en boða í staðin einhvers konar heildarendurskoðun,“ segir Snorri í samtali við mbl.is.
Segir hann það vera undarlegt að ráðast með óbeinum hætti að stóru miðlunum í aðdraganda heildarendurskoðunar.
Í frumvarpinu segir Logi að þetta sé gert til að styrkja betur við héraðsmiðla á landsbyggðinni.
„Ég vil bara vekja athygli á því að þessi rökstuðningur menningarráðherra er algjör fyrirsláttur frá upphafi til enda,“ segir Snorri og bætir við að þarna sé verið að senda pólitísk skilaboð.
Í lokin segir hann að með þessu séu stjórnvöld að búa til óstöðugleika. „Á meðan við erum með þetta óheilbrigða styrkjakerfi geta menn ekki verið að notfæra sér það til að senda pólitísk skilaboð,“ segir Snorri.