Ákvörðun tekin í bergmálshelli verði endurskoðuð

mbl.is/Sigurður Bogi

Landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi (Samfés), Félag fagfólks í frístundaþjónustu á Íslandi (FFF) og Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT) lýsa yfir alvarlegum áhyggjum sínum og eindreginni andstöðu við þá ákvörðun og vinnubrögð bæjaryfirvalda á Akureyri að leggja niður sjálfstæða starfsemi félagsmiðstöðva og færa hana alfarið undir stjórn grunnskóla bæjarins.

Í yfirlýsingu eru bæjaryfirvöld á Akureyri hvött til að vanda til verka við alla stefnumótun og skipulagsbreytingar sem varða þjónustu við börn og ungmenni. Skorað er á bæjaryfirvöld að endurskoða ákvörðun sína í virku og opnu samráði við fagfólk, börn og ungmenni.

Þau sem standa að yfirlýsingunni segja ákvörðun bæjarins hafa verið tekna í bergmálshelli þar sem einungis hafi verið leitað til og hlustað á viðhorf stjórnenda og aðstandenda grunnskóla og þeirra sem bera ábyrgð á formlegu námi en ekki verið tekið tillit til þess faglega starfs sem fer fram eftir að skóla lýkur.

Leiðandi sveitarfélag um árabil

Hópurinn hvetur til samstöðu um að tryggja sjálfstæði og faglegt svigrúm frístundastarfs fyrir börn og ungmenni í þágu hagsmuna alls samfélagsins.

Með því megi tryggja áframhaldandi öflugt, faglegt og fjölbreytt æskulýðsstarf í þágu farsældar og framtíðar barna og ungmenna á Akureyri.

Í yfirlýsingunni segir að slíkar ákvarðanir krefjist faglegs samtals, samráðs og gagnreyndrar þekkingar, ekki síst í ljósi þess að Akureyrarbær hefur um árabil verið leiðandi sveitarfélag í æskulýðs- og tómstundastarfi á landsvísu.

„Þótt sameiginlegt markmið allra sem vinna með börnum og ungmennum sé velferð þeirra og þroski, þá er það grundvallaratriði að viðurkenna og virða mismunandi eðli formlegs og óformlegs náms.

Sérfræðingar í formlegu námi hafa mikilvægu hlutverki að gegna innan skólakerfisins en með sama hætti eru sérfræðingar í óformlegu námi sem starfa í félagsmiðstöðvum og frístundastarfi ómissandi í félagslegum þroskaferli barna og ungmenna,“ segir í yfirlýsingu hópsins.

Frá Samfestingnum í Laugadalshöll, árlegri hátíð Samfés.
Frá Samfestingnum í Laugadalshöll, árlegri hátíð Samfés. mbl.is/Árni Sæberg

Gangi gegn viðurkenndum faglegum viðmiðum

Þau sem standa að yfirlýsingunni telja ákvörðun bæjarins ganga gegn viðurkenndum faglegum viðmiðum í æskulýðsstarfi, þar sem sjálfstæði félagsmiðstöðva, frjáls þátttaka og lýðræðisleg vinnubrögð eru grundvallaratriði.

Þau telja ákvörðunina stangast á við markmið farsældarlaga, sem leggja áherslu á samþætta, fjölbreytta og barnamiðaða þjónustu þar sem rödd barna og ungmenna skiptir máli.

Þau telja hana fara gegn viðmiðum barnvæns sveitarfélags, með því að slíkar kerfisbreytingar séu gerðar án samráðs við Ungmennaráð Akureyrar.

Þau telja hana draga úr fjölbreytileika og aðgengi að sjálfstæðu, valdeflandi æskulýðsstarfi sem hefur sýnt sig að vera lykilþáttur í félagsfærni, vellíðan og lýðræðisþátttöku ungs fólks.

Jafnframt telja þau hana veikja það faglega starf sem fer fram í frítíma barna og unglinga eftir að skóla lýkur á daginn.

Frá Samfés og Landsþingi ungs fólks 2024.
Frá Samfés og Landsþingi ungs fólks 2024. Ljósmynd/Aðsend

Veikir forvarnarstarf og snemmtæka íhlutun

Hópurinn segir ákvörðunina hafa verið tekna í bergmálshelli þar sem einungis hafi verið leitað til og hlustað á viðhorf stjórnenda og aðstandenda grunnskóla og þeirra sem bera ábyrgð á formlegu námi en ekki verið tekið tillit til þess faglega starfs sem fer fram eftir að skóla lýkur.

Hópurinn telur ákvörðunina veikja það forvarnarstarf og snemmtæka íhlutun sem fer fram í félagsmiðstöðvum á sama tíma og vísbendingar séu um að neysla og áhættuhegðun ungs fólks á Íslandi sé að aukast.

„Að fella félagsmiðstöðvastarf undir skólakerfið er ekki aðeins faglega óeðlilegt heldur einnig varhugavert. Slíkt dregur úr mikilvægi óformlegs náms, þar sem börn og ungmenni þroskast á eigin forsendum með leiðsögn fagfólks í öruggu og valdeflandi umhverfi.

Vinnulag þar sem skólastjórnendur fá yfirráð yfir félagsmiðstöðvum skapar hættu á hagsmunaárekstrum sem valdið hafa togstreitu í áraraðir og viðvarandi skerðingu á gæðum frístundastarfs,“ segir í yfirlýsingunni.

Hópurinn telur mikilvægt að geta þess að félagsmiðstöðvastarf hefur sterkar rætur á Akureyri og hefur verið öðrum sveitarfélögum til fyrirmyndar. Með því að halda í sjálfstæði æskulýðsstarfs og byggja á styrkleikum þess geti Akureyrarbær haldið áfram að vera í fararbroddi.

„Við hvetjum stjórnvöld, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila til að virða og styðja við sérþekkingu fagfólks í frítímastarfi og óformlegu námi rétt eins og gert er við kennara og aðra sérfræðinga í formlegu námi.

Við skorum því á bæjaryfirvöld að endurskoða ákvörðun sína í virku og opnu samráði við fagfólk, börn og ungmenni. Með því má tryggja áframhaldandi öflugt, faglegt og fjölbreytt æskulýðsstarf í þágu farsældar og framtíðar barna og ungmenna á Akureyri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert