„Þetta eru mjög áhugaverðar tölur og auðvitað aukning í öllum efnum, en kókaínið ber þarna helst á góma,“ segir Ingvi Steinn Jóhannsson í samtali við mbl.is, aðalvarðstjóri tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli og formaður Tollvarðafélags Íslands.
Vísar Ingvi Steinn til nýlegrar umfjöllunar hér á vefnum um haldlagningu fíkniefna á Keflavíkurflugvelli þar sem magnið hefur aukist jafnt og þétt síðustu árin, en viðmælandi mbl.is var þar Jón Halldór Sigurðsson sem fer fyrir rannsóknum lögreglunnar á Suðurnesjum á skipulagðri brotastarfsemi.
Lét Jón Halldór þess getið í viðtalinu við hann að aukið magn fíkniefna, sem nú finnst á farþegum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, megi þakka nánu samstarfi tollgæslunnar og lögregluembættisins á Suðurnesjum, en það sem af er ári hafa 40,26 kílógrömm af kókaíni verið gerð þar upptæk, tæp 110 kg af kannabisefnum og rúmlega 20.000 töflur af ópíóðalyfinu Oxycontin og eftirlíkingum þess. Slagar sú tölfræði upp í heildarhaldlagningu síðasta árs.
„Tollgæslan og lögreglan á Suðurnesjum hafa unnið mjög náið saman í þessari vinnu við að stoppa þetta á landamærunum og ég myndi segja að þetta væri bara árangur af því samstarfi. Tollverðir eru orðnir mjög færir og glöggir í að stinga út fólk sem er líklegt,“ sagði Jón Halldór við mbl.is.
Ingvi Steinn segir árangurinn sprottinn af því að tollgæslan hafi undanfarin ár lagt aukna áherslu á áhættugreiningu farþega er um flugstöðina fara. „Tollverðir sinna þessari greiningarvinnu faglega og svo höfum við auðvitað líka þetta eiginlega eftirlit með farþegum og vörum sem koma til landsins. Þetta er samspil milli greiningar og ákveðins innsæis sem skilar sér í þessum árangri,“ segir stéttarfélagsformaðurinn og aðalvarðstjórinn.
Eru menn ekkert að heykjast á því að nota flugvöllinn sem er svona einfaldasta nálaraugað að hafa eftirlit með, til dæmis þegar borið er saman við heilu gámaskipin þar sem fjöldi stórra fíkniefnamála hefur komið upp?
„Flugvöllurinn er alltaf jafn vinsæl smyglleið, aðallega vegna þess hve slíkt smygl gengur hratt fyrir sig,“ svarar Ingvi Steinn, „ef þú ert að bíða eftir einhverju skipi getur það tekið einhverjar vikur, en hérna eru þetta bara einhverjir klukkutímar frá áfangastað einhvers staðar úti í Evrópu og hingað til Keflavíkur. Eftirspurnin er þannig að hún kallar á skjót viðbrögð í þessum geira, því miður,“ segir hann og fjallar að eggjan blaðamanns nánar um áhættugreiningu.
„Greiningarvinna felst til dæmis í yfirferð farþegalista sem hefur nú verið tíðrætt um í fjölmiðlum. Flugfélögin verða að skila þessum listum og gera það velflest og yfirferð á þeim í því augnamiði að finna réttu aðilana er einn liður í greiningarvinnu,“ svarar viðmælandinn og er spurður út í aðferðafræði smyglara nú til dags – hvort þróun nýrra aðferða hafi verið áberandi frá því fyrstu fíkniefnasmyglararnir hér á landi fetuðu sig gegnum þáverandi flugstöð fyrir rúmlega hálfri öld með magafylli af hassi frá Kaupmannahöfn í smokkum.
„Maður sér alltaf nýjar leiðir. Við fengum til dæmis nýlega hingað aðila sem voru fjórir saman í einni ferð, ég held að það sé nýfallinn dómur um þetta mál sem var mjög sérstakt, að fá fjóra saman í smyglferð þegar yfirleitt hefur verið um einn eða tvo að ræða gegnumgangandi,“ svarar Ingvi Steinn spurningunni.
Hann segir enda rýmið fyrir nýjar og frumlegri aðferðir takmarkað miðað við það sem hinn dæmigerði flugfarþegi hafi úr að moða. „Þetta er náttúrulega bara farangurinn og manneskjan sjálf þannig að við höfum svo sem séð nánast allt áður, það er ekki mikið um frumkvöðlastarf í fíkniefnasmygli,“ segir aðalvarðstjórinn.
Aðspurður segir hann það enn fremur líklegra en ekki að tollverðir á flugvellinum hafi misst af fíkniefnasmyglurum á meðan þeir séu fastir í að leita á öðrum smyglurum eða bíða þess að lögregla sæki þá, en rannsóknarforræði allra fíkniefnamála er í höndum lögreglu, tollgæsla rannsakar ekki fíkniefnasmygl nema frá hinum endanum – í þeim tilgangi að efla áhættugreiningarstarf sitt.
Segir Ingvi Steinn þetta minna á það sem áður hefur komið fram í viðtölum fjölmiðla við tollgæslu, að fleiri tollverði þurfi til að halda uppi eftirliti með því sem flutt er inn í landið – hvort sem um löglegan eða ólöglegan varning sé að ræða.
„Við þurfum fleiri tollverði, fjöldinn núna er svipaður og hann var 2015-2016 og við þurfum að bæta þar í til þess að geta farið yfir öll verkefni,“ segir hann og kveður stuðninginn að þessu leyti fyrir hendi, hvort tveggja frá skattstjóra og tollgæslustjóra, en tollstjóraembættið sameinaðist embætti skattstjóra á nýársdag 2020 svo sem þróunin hefur verið í Ástralíu, Bretlandi, Danmörku, á Nýja-Sjálandi og víðar í heiminum.
Segir Ingvi Steinn stuðning innanhúss þó aldrei ná upp í áþreifanlega ákvörðunartöku um málið, til þess þurfi stjórnvöld að leggja gjörva hönd á plóg. „Við höfum óskað eftir fundi með fjármála- og efnahagsráðherra til þess að ræða um áskoranir og það sem þarf að gerast í tollgæslunni. Þann fund höfum við ekki fengið enn þá, en við vonumst til þess að það gerist fyrr eða seinna,“ segir hann.
Ingvi Steinn segir fíkniefnamálin taka bróðurpart athyglinnar á Keflavíkurflugvelli, „en við fáum alls konar mál hérna, svo sem lyfjamál og þessi hefðbundnu tollalagabrot. Svo fáum við hingað fólk sem af einhverjum ástæðum er óæskilegt inn í landið, hvort sem það er með fölsuð skilríki eða hefur réttindi til að vera á Schengen-svæðinu, þetta stoppar oft og tíðum hjá okkur, bæði vegna greiningarvinnu og hefðbundins tolleftirlits,“ útskýrir hann.
Þá komi fjöldi hælisleitenda rakleiðis til tollgæslu og biðji þar um hæli. Þá þurfi að kalla til lögreglu. „Við erum með aðila sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi og fara þá í frávísun, við erum með fólk sem er tengt svartri atvinnustarfsemi sem við tilkynnum til lögreglu og svo til skattyfirvalda og svo framvegis. Það eru ótrúlega mörg mismunandi verkefni hjá okkur og þess vegna er mikilvægt að hafa hlutina í lagi hjá tollgæslunni upp á þetta að gera,“ segir Ingvi Steinn Jóhannsson, formaður Tollvarðafélags Íslands og aðalvarðstjóri tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli að lokum.