Hæstiréttur hefur fallist á að taka fyrir mál tveggja lántakenda gegn Landsbankanum en Landsbankinn var sýknaður af kröfum lántakendanna í héraðsdómi.
Málið er hliðstætt þremur öðrum málum sem þegar hafa hlotið áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og varða skýrleika skilmála lána með breyilegum vöxtum.
Hæstiréttur féllst á að taka málið fyrir enda telur rétturinn að dómur í því geti haft fordæmisgildi sem og almenna og verulega samfélagslega þýðingu. Höfðu lántakendurnir borið fyrir sig að skilmálann sem að um ræði sé að finna í þúsundum lána Landsbankans.
Málið fer því beint fyrir Hæstarétt í stað þess að Landsréttur dæmi í málinu.
Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður þeirra lántakenda sem reka dómsmál gegn bönkunum útaf téðum skilmálum, hefur áður sagt í samtali við mbl.is að hagmunirnir sem liggi undir vegna málana nemi um 30 milljörðum króna.
EFTA-dómstóllinn sagði í áliti sínu að óskýrleiki sé til staðar í skilmálum lána með breytilegum vöxtum en setti þó þann fyrirvara að það sé íslenskra dómstóla að meta hvort niðurstaða EFTA dómstólsins samræmist íslenskum lögum.