Bílskúrinn sem kviknaði í á Álftanesi í dag er illa brunninn, að sögn Davíðs Friðjónssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Eldurinn dreifðist ekki í íbúðahús sem er samtengt bílskúrnum.
Vel gekk að slökkva eldinn en útkall barst slökkviliði klukkan 15.47 og var kallað til dælubíla frá öllum fjórum stöðvum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar mbl.is hafði samband við slökkvilið klukkan 16.30 var búið að slökkva eldinn en enn var unnið að því að sjá til þess að engar glæður kæmu eldinum aftur af stað.
Um klukkan 17 var aðgerðum lokið á vettvangi, að sögn Davíðs.
Engin slys urðu á fólki. Ekki er vitað um eldsupptök.